Gömul A-hús í Brekkuskógi boðin áhugasömum til eignar

Ekki þykir svara kostnaði að ráðast í endurnýjun húsanna

14.1.2020

  • A_hus_brekkusk
  • DSC_0450
  • DSC_0446

Á orlofssvæði BHM í Brekkuskógi í Biskupstungum eru nokkur orlofshús með lágum veggjum á langhliðum og bröttu þaki, svokölluð A-hús. Þau eru um og yfir 40 ára gömul, 46 fermetrar að flatarmáli og standa á steyptum súlum. Þrátt fyrir að reglulegu viðhaldi hafi verið sinnt eru sex af þessum húsum í mjög bágbornu ástandi. Ekki er talið að það myndi svara kostnaði að ráðast í viðamikla endurnýjun þeirra.

Í ljósi þessa hefur stjórn Orlofssjóðs BHM nú ákveðið að reisa sex ný orlofshús í Brekkuskógi sem leysa munu gömlu A-húsin af hólmi. En í stað þess að rífa húsin og farga þeim hyggst sjóðurinn afhenda áhugasömum aðilum þau til eignar gegn því að þau verði fjarlægð af svæðinu. 

Við ákvörðun um ráðstöfun húsanna munu sjóðfélagar ganga fyrir og einnig aðilar sem reiðbúnir eru að fjarlægja fleiri en eitt hús. Verði eftirspurnin meiri en framboðið verður dregið úr hópi áhugasamra. Aðili sem fær eitt hús eða fleiri afhent til eignar þarf að undirrita samning þar sem m.a. verður kveðið á um lokafrest til að fjarlægja húsið/húsin. Einnig verða þar ákvæði um að húsin séu afhent í því ástandi sem þau eru o.fl.

Hér má sjá kort af svæðinu. Húsin sem um ræðir eru nr. 5, 6, 7, 8, 15 og 16.

Áhugasömum skal bent á að hafa samband við Gissur Kolbeinsson, fjármála- og rekstrarstjóra BHM (gissur@bhm.is / 866 7139), fyrir 20. febrúar nk.

Bygging nýrra húsa verður boðin út

Nýju húsin sex sem reist verða í stað gömlu A-húsanna eru hönnuð af arkitektunum Sigríði Maack og Ingunni Hafstað hjá Arktika. Við hönnun þeirra var leitast við koma til móts við þarfir og óskir sjóðfélaga samkvæmt niðurstöðum viðhorfskannana sem stjórn Orlofssjóðs hefur gert. Nýju húsin verða töluvert stærri en A-húsin og frábrugðin þeim að ýmsu leyti. Ráðgert er að auglýsa útboð á smíði húsanna nú í febrúar og að byggingarframkvæmdum verði lokið árið 2022.