Frávísun Hæstaréttar á máli Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands gegn ríkinu

21.9.2018

  • sinfonian2

Nýlega staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Félagsdóms um að vísa frá máli Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands gegn ríkinu. Niðurstaða Hæstaréttar sýnir að mikilvægt er að vanda orðalag bókana í kjarasamningum svo unnt sé að byggja kröfugerð fyrir dómi á þeim ef ágreiningur rís um efni þeirra.

Við gerð kjarasamnings milli Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SMFSÍ) og stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) árið 2011 urðu aðilar ásáttir um að skipa starfshóp til að skoða vinnutíma hjá SÍ í samanburði við hljómsveitir erlendis og laun hljóðfæraleikara í samanburði við stéttir með sambærilega menntun á Íslandi. Var hópnum jafnframt falið að setja fram tillögur um breytingar á tilhögun vinnufyrirkomulags og launaákvarðana. Um þetta var gerð sérstök bókun. Í henni sagði m.a. að samningsaðilar myndu fjalla um niðurstöður starfshópsins og gera viðeigandi breytingar til samræmis við þær og skulu þær koma til framkvæmda eigi síðar en 1. september 2012 eða í samræmi við þá útfærslu sem leiðir af niðurstöðu samningsaðila.

Starfshópurinn skilaði greinargerð í ágúst 2012 með tillögum um breytingar á vinnutíma og launum. Í greinargerðinni sagði m.a. að við launasetningu væri æskilegt að tekið yrði tillit til mismunandi hópa innan hljómsveitarinnar og tryggt að meðallaun almennra hljóðfæraleikara í SÍ væru ekki undir meðallaunum BHM. Ekki náðist samkomulag milli samningsaðila um nánari útfærslu á grundvelli bókunarinnar og greinargerð starfshópsins og höfðaði SMFSÍ því mál fyrir Félagsdómi.  Í málinu krafðist SMFSÍ þess að viðurkenndur yrði sá skilningur félagsins að ríkið væri bundið af umræddri bókun og niðurstöðu starfshóps um að meðallaun almennra hljóðfæraleikara SMFSÍ skyldu ekki vera undir meðallaunum aðildarfélaga BHM frá tilteknu tímamarki. Félagsdómur vísaði málinu frá á þeim grundvelli að kröfugerð SMFSÍ lyti að hagsmunaágreiningi og atriðum er lytu að gerð kjarasamnings en ekki að réttarágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans.

SMFSÍ áfrýjaði málinu til Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu Félagsdóms með úrskurði 17. september sl. Í niðurstöðu réttarins segir að orðalag bókunarinnar beri með sér að vera „stefnuyfirlýsing og markmiðssetning en ekki ákvæði kjarasamnings um tiltekin réttindi eða skyldur aðila að samningnum.“

Úrskurður Hæstaréttar undirstrikar mikilvægi þess að vanda orðalag bókana í kjarasamningum. Almennt er litið svo á að ekki skipti máli hvort samningsatriði komi fram í sérstakri bókun, sem ekki er hluti af meginmáli kjarasamnings, eða í samningnum sjálfum. Í þessu tilviki má ætla að hefði því verið lýst með skýrum hætti í bókuninni hvernig útfæra ætti niðurstöður starfshópsins eða hvers efnis kjarasamningurinn ætti að verða að þeim breytingum loknum hefði niðurstaðan mögulega orðið SMFSÍ í vil.