Jafnlaunastaðal þarf að þróa áfram því jafnlaunavottun er ekki trygging fyrir útrýmingu launamisréttis

Jafnréttisráð verði lagt niður í núverandi mynd

2.11.2020

BHM hefur skilað umsögn um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála til allsherjar og menntamálanefndar Alþingis. Bandalagið fagnar framkomnum frumvörpum, enda endurskoðun jafnréttislaga löngu tímabær. Hér að neðan er stiklað á stóru úr umsögninni en hana má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Jafnlaunastaðal þarf að þróa áfram því jafnlaunavottun er ekki trygging fyrir útrýmingu launamisréttis
BHM styður eindregið þá breytingatillögu að skilgreina fjölþætta mismunun betur og gera hana óheimila (1. og 2. gr.), enda markmið laganna að vinna gegn fjölþættri mismunun. 

Einnig er það jákvætt að jafnlaunavottunin sem lögfest var 2017 sé áfram í lögum, en BHM telur það hafið yfir vafa að jafnlaunastaðalinn þurfi að þróa áfram eftir að hlé var gert á vinnu við hann vegna heildarendurskoðunar jafnréttislaga. Jafnlaunavottunin er ekki trygging fyrir útrýmingu launamisréttis. Fleiri og markvissari aðgerðir þurfi til að útrýma kynbundnum launamun hér á landi.

Jafnréttistofa að sjá um jafnlaunavottun en ekki aðilar vinnumarkaðarins
BHM styður jafnframt þá tillögu að minni fyrirtæki geti fengið jafnlaunastaðfestingu hjá Jafnréttisstofu í stað þess að samið sé um það í kjarasamningum. BHM telur jafnframt að Jafnréttisstofa ætti að hafa með höndum jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu en ekki samtök aðila vinnumarkaðarins. Eðlilegt sé að stofnunin hafi eftirlit með þessum tilteknu ákvæðum laganna rétt eins og öðrum ákvæðum jafnréttislaga (9. og 10. gr.).

Jafnréttisráð mætti leggja niður
Í ljósi þess hve Jafnréttisráð hefur fáum hlutverkum að gegna verði frumvarpið samþykkt leggur BHM til að það verði lagt niður og verkefnin færð til Jafnréttisstofu og samráðsvettvangs. BHM telur að samráðsvettvangur um jafnrétti kynjanna með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, fræðasamfélagsins og félagasamtaka sem starfa á sviði kynjajafnréttis geti tekið við því hlutverki að vera ráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í stað Jafnréttisráðs. Þar gæti skapast breið og góð umræða um stöðu jafnréttisbaráttunnar. Einnig er lagt til að samtök launafólks eigi einn fulltrúa hvert á nýja vettvangnum.

BHM fagna einnig þeirri tillögu að boðað verði til Jafnréttisþings annað hvert ár í stað þess að boða það innan árs frá Alþingiskosningum því nauðsynlegt sé að halda Jafnréttisþing með reglubundnum hætti.

Skerping á heimildum til dagsekta mikilvæg í frumvarpi til laga um stjórnsýslu jafnréttismála
BHM er hlynnt þeirri breytingu að hafa skipulag stjórnsýslu jafnréttismála í einum lögum en ekki aðallega í lögum um jafnrétti kynja líkt og nú. Með breytingunni verða hlutverk Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála skýrari.

BHM telur mikilvægt að skerpt verði á heimildum Jafnréttisstofu til að beita dagsektum til að knýja fram aðgerðir og viðbrögð eins og lagt er til í frumvarpinu. Þessa heimild hefur Jafnréttisstofa hingað til ekki nýtt en gera má ráð fyrir að beiting dagsekta verði raunhæfari við gildistöku nýrra laga. Bæði þar sem kærunefnd jafnréttismála er ætlað, þegar svo ber undir, að beina í úrskurðum sínum fyrirmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila og vegna innleiðingar á jafnlaunavottun sé brestur þar á. 

Smellið hér til að lesa umsögnina í heild sinni. 


Fréttir