„Jákvæð“ rekstarniðurstaða Landspítalans ekki komin til af góðu

Vegna umfjöllunar fjölmiðla um tugmilljóna króna rekstrarafgang Landspítalans á síðasta ári vill BHM koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.

28.4.2016

Á síðasta ári sáu fjölmargir starfsmenn Landspítalans sig tilneydda að leggja niður vinnu til að fylgja eftir kröfum um kjarabætur. Verkföll félagsmanna aðildarfélaga BHM spöruðu ríkisvaldinu launakostnað upp á hundruð milljóna króna sem endurspeglast nú í afkomutölum spítalans fyrir árið 2015. Ljóst er að ef ekki hefði komið til þessara verkfalla hefði mikill halli orðið á rekstrinum. „Jákvæð“ rekstrarniðurstaða spítalans á síðasta ári er því ekki komin til af góðu, enda er hún fengin á kostnað starfsfólks og með skertri þjónustu við sjúklinga. Í þessu sambandi vekur BHM sérstaklega athygli á ákvörðun spítalans um að greiða ljósmæðrum ekki laun fyrir vinnuframlag þeirra í verkfallinu. Bandalagið hefur gert alvarlegar athugasemdir við þessa ákvörðun og fimm ljósmæður hafa nú höfðað mál gegn ríkinu, enda mikið réttlætismál að fá henni hnekkt.


Fréttir