Jóhann Gunnar tekinn við tímabundið sem formaður BHM

22.3.2021

  • Joi1

Fráfarandi formaður BHM, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur gert samkomulag við stjórn bandalagsins um hvernig starfslokum hennar verði háttað. Í samkomulaginu felst m.a. að varaformaður BHM, Jóhann Gunnar Þórarinsson, taki við sem formaður frá og með miðvikudeginum 17. mars og sitji fram að aðalfundi bandalagsins 27. maí.

Jóhann Gunnar var kjörinn varaformaður BHM í rafrænni kosningu sl. vor. Hann starfar sem fagstjóri leyfisveitinga og eftirlits með gististöðum hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, er varaformaður Stéttarfélags lögfræðinga (SL), situr í kjara- og réttindanefnd BHM og er varamaður í stjórn Menntasjóðs námsmanna.

Þórunn Sveinbjarnardóttir tilkynnti í febrúar að hún hygðist ekki bjóða sig fram að nýju til formanns BHM. Hún hefur verið formaður undanfarin 6 ár en samkvæmt lögum bandalagsins má formaður mest sitja í 8 ár.


Fréttir