Kaflaskil í lífeyrismálum opinberra starfsmanna

Áramótapistill formanns BHM, Þórunnar Sveinbjarnardóttur

30.12.2016

  • IMG_7685a

Rétt fyrir jól samþykkti Alþingi breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR). Breytingarnar eiga einnig við um lífeyrissjóðinn Brú (áður LSS) og taka gildi 1. júní 2017. Eins og félagsmönnum aðildarfélaga BHM er kunnugt gerði bandalagið alvarlegar athugasemdir við efni frumvarpsins í meðförum Alþingis enda töldu BHM, BSRB og KÍ texta þess ekki vera í samræmi við samkomulag sem gert var við fjármálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga 19. sept. sl. Aðalkrafa BHM var að í texta framvarpsins væri skýrt kveðið á um að lífeyrisaukinn tæki til allra sjóðfélaga en ekki einungis virkra sjóðfélaga eins og nú er illu heilli orðið að lögum.

Það verður að segjast eins og er að afgreiðsla nýkjörins Alþingis olli mér miklum vonbrigðum. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar kaus að hafa athugasemdir BHM að engu og minni hluti hennar skiptist í þrennt og náði engum breytingum fram á frumvarpinu sem máli skipta. Allt tal um bætt vinnubrögð, betri hlustun og samtal fór því fyrir lítið í þessu mikilvæga máli.

1. júní á næsta ári mun ávinnsla lífeyrisréttinda breytast frá því að verða jöfn alla starfsævina í að verða aldurstengd og mest fyrri hluta ævinnar. Að auki færist eftirlaunaaldur nýrra sjóðfélaga A-deildanna úr 65 árum í 67 ár. Um þessi markmið hefur ekki verið deilt í viðræðum opinberu bandalaganna við ríki og sveitarfélög. Deilan stóð hins vegar um hvernig ætti að standa vörð um réttindi núverandi sjóðfélaga um leið og lífeyrisréttindi í landinu væru samræmd og óbein ábyrgð ríkisins afnumin. Um þessi atriði náðist viðunandi samkomulag í haust en texti frumvarpanna (sem lögð voru fram í október og svo aftur í desember) endurspeglaði að okkar áliti ekki þessa niðurstöðu. Vissulega eru réttindi þorra sjóðfélaga A-deildanna tryggð, þ.e. með lífeyrisauka sem dekkar muninn á jafnri og aldurstengdri ávinnslu og gerir fólki kleift að hætta störfum 65 ára. Nýju lögin tryggja hins vegar ekki réttindi þeirra sem eiga geymd réttindi í sjóðunum til lífeyrisauka og þau tryggja ekki heldur nægjanlega sveigjanleika á vinnumarkaði fyrir núverandi sjóðfélaga því að þeir eru í raun í vistarbandi hjá ríkinu, ætli þeir síðar á ævinni að njóta lífeyrisaukans.

Nú tekur við mikið starf bandalags og aðildarfélaga að vinna úr þessari niðurstöðu, upplýsa félagsmenn um þýðingu hennar og fylgja eftir nauðsynlegum breytingum á samþykktum LSR og Brúar. Þá ákvað stjórn BHM á fundi á milli jóla og nýárs að kanna grundvöll málsóknar á hendur ríkinu vegna þessara málalykta.

Í umsögn sinni um frumvarp til breytinga á Kjararáði sem Alþingi afgreiddi rétt fyrir jól benti BHM m.a. á að ótímabært væri að kveða á um það í lagatexta að taka ætti mið af sameiginlegri launastefnu á vinnumarkaði í ákvörðunum Kjararáðs. Varla þarf að benda á að slík sameiginleg launastefna allra aðila vinnumarkaðarins ekki til. Að mati BHM er því eðilegra að heildarsamkomulag um launastefnu á vinnumarkaði (á vettvangi salek-hópsins) liggi fyrir áður en löggjafinn fer að vísa til hennar. Ekki er síður mikilvægt að vekja athygli stjórnvalda og atvinnurekenda á því að að niðurstaða lífeyrismálsins og eftirmál þess kunna að torvelda mjög frekara samstarf aðila á vinnumarkaði um fyrirsjáanlega framtíð. Salek-samstarfið er í hnút, sem ekkert útlit er fyrir að leystur verði í bráð.

Að lokum langar mig að þakka félögsmönnum aðildarfélaga BHM samstarfið á árinu og óska ykkur gleðilegs og farsæls nýs árs! Fréttir