Kjaratölfræðinefnd birtir sína fyrstu skýrslu á morgun

15.9.2020

  • launatolfraedi

Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar, samstarfsvettvangs um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag, verður birt á morgun, 16. september. Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningslotuna sem hófst árið 2019, umfang kjarasamningagerðar, og þróun efnahagsmála og launa.

Kynningin verður í formi fjarfundar (sjá hlekk hér að neðan). Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra mun ávarpa fundinn og Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar, kynna skýrsluna og gera grein fyrir helstu atriðum hennar en fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.

Kjaratölfræðinefnd var stofnuð á síðasta ári og er ætlað að vera vettvangur samráðs milli aðila vinnumarkaðar í aðdraganda kjarasamninga. Nefndinni ber að stuðla að því að aðilar hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við samningagerðina. Gert er ráð fyrir að nefndin gefi út tvær skýrslur á ári.

Auk BHM eiga forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands aðild að nefndinni. Félags- og barnamálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn eftir tilnefningum þeirra sem eiga aðild að nefndinni, einn fulltrúa frá hverjum aðila. Ráðherra skipar jafnframt formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin er hýst hjá Ríkissáttasemjara sem leggur til fundar- og starfsaðstöðu.

Fulltrúi BHM í nefndinni er Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur bandalagsins.


Fréttir