Við nennum ekki að bíða lengur!

Ávarp Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, á Austurvelli á Kvennafrídeginum 24. október 2016

24.10.2016

  • Thorunn_kvennafri_2016

Til hamingju með daginn!

24. október árið 1975 stóð tíu ára gömul stúlka á Lækjartorgi og lifði stund sem hún skildi ekki til fulls fyrr en löngu seinna. Krafturinn og samstaðan sem myndaðist þennan dag varð að áþreifanlegu afli sem konur virkjuðu á vinnumarkaði og í stjórnmálum, öllu samfélaginu til heilla.

41 einu ári síðar stendur þessi sama stelpa á palli á Austurvelli á sama degi og af sama tilefni og krefst réttlætis og jafnra kjara strax. Ég er skilgetið afkvæmi kvennafrídagsins fyrsta og alls þess sem íslenska kvennahreyfingin hefur áorkað í meira en hundrað ár, og ég er ekki ein. Við öll stöndum á grunninum sem baráttukonur og framsýnir karlar lögðu fyrir okkur.

Kvennafrídagurinn árið 2016 er áminning, brýning í samfélagi þar sem margir halda að fullum árangri hafi verið náð í jafnréttismálum og tala jafnvel um heimsmet.

Við erum hér vegna þess að konur þurfa að verða sýnilegri, þær þurfa að taka meira pláss á opinberum vettvangi – í fjölmiðlunum, í kjarabaráttu, í stjórnmálum, á vinnustöðunum og í atvinnulífinu.

Kjarni kvenfrelsisbaráttunnar er að konur taki sér opinbert rými að þær taki pláss á eigin forsendum, að þær séu í lagi eins og þær eru, en ekki einhvern veginn öðru vísi. Að þær séu hvorki þrælar afturhaldshugmynda eða valdakerfis, sem þær bjuggu ekki til – heldur frjálsar. Þess vegna er kvenfrelsisbaráttan líka barátta minni hluta hópa fyrir sýnleika, virðingu og viðurkenningu í samfélaginu.

Eitt hefur reynsla undanfarinna áratuga staðfest svo um munar:

Ekkert kemur af sjálfu sér!

Jafnrétti og mannréttindi tryggjum við aðeins með því að taka tímabærar, réttar og framsýnar pólitískar ákvarðanir. Dæmin sanna það:

Sókn kvenna til háskólamenntunar var m.a. möguleg vegna öldungadeildanna á áttunda áratugnum og Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Fjölgun leikskóla kom ekki af sjálfu sér.

Fæðingarorlof fyrir mæður og feður kom ekki af sjálfu sér, en var ávöxtur áralangrar baráttu. Um það var og er þverpólitísk samstaða, enda frábært tæki til að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði ef rétt er með það farið.

Jafnlaunastaðallinn varð heldur ekki til í pólitísku tómarúmi. Hann er forgangsmál á vinnumarkaði vegna þess að launamunur er óþolandi mannréttindabrot og við nennum ekki að bíða lengur!

Daglega eru teknar ákvarðanir um kaup og kjör karla og kvenna um allt land. Þetta eru ákvarðanir sem hafa áhrif á ævitekjur einstaklinganna. Verkefni okkar er að tryggja að þær séu teknar á jafnréttisgrundvelli. Ákvörðun um lágar tekjur er ávísun á lágan ellilífeyri gamalla kvenna.

Að lokum þetta, góðir félagar og fundargestir.

Kvennasamstaðan getur flutt fjöll.

Stöndum með hver annarri í baráttunni gegn kynbundnum launamun.

Stöndum hvert með öðru, karlar og konur.

Og síðast en ekki síst, stelpur, stöndum með sjálfum okkur. Þá eru okkur allir vegir færir, vegna þess að við erum margar! Við höfum allar kosningarétt!

Tökum það pláss sem okkur ber og látum í okkur heyra:

KJARAJAFNRÉTTI STRAX!Fréttir