Kulnun og örmögnun kvenna – hvað er til ráða?

1.11.2019

  • Thegar-kona-brotnar-FRAMAN-600x771

Nýlega hélt Sirrý Arnardóttir síðdegisfyrirlestur á vegum BHM sem bar yfirskriftina ,,Kulnun og bjargráð kvenna”. Vegna mikillar aðsóknar var fyrirlesturinn endurtekinn viku síðar og að auki var honum streymt á streymissíðu BHM. 

Í fyrirlestrinum fjallaði Sirrý um bók sína Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný sem gefin var út í samstarfi við VIRK starfsendurhæfingarsjóð. Að fyrirlestrinum loknum lagði Sirrý tvær spurningar fyrir áheyrendur og bað þær um að ræða möguleg svör í litlum hópum.

Hér á eftir fara spurningarnar og nokkur svör sem fram komu umræðunum, þ.e.a.s. hugmyndir um fyrirbyggjandi leiðir og möguleg úrræði sem þátttakendur nefndu.

Hvað getur einstaklingurinn gert til að koma í veg fyrir kulnun/örmögnun?

*,,Velja sjálf fyrir sig í lífinu.”

*,,Vera betri við hver aðra og hættum að bera okkur saman og metast á.”

*,,Passa upp á að nota samfélagsmiðla ekki of mikið.”

*,,Straldra oftar við og spá í hvað get ég gert fyrir sjálfa mig.”

*,,Ömmubæn Hauks Morthens er í fullu gildi: ,,Að færast ekki í fang svo mikið að festu þinnar brotni tré.”

*,,Gera eitt í einu – og bara eitt í einu. Lifa hægar.”

*,,Segja oftar nei og vita hvenær við erum að fara fram úr okkur.”

*,,Leyfa sér að segja Nei.”

*,,Ekki taka á sig ábyrgð sem enginn bað okkur um.”

*,,Setja sér mörk. Það má fara í bakarí, enginn sem krefst þess að allt sé heimabakað.”

*,,Draga úr því að vera bílstjóri barnanna.”

*,,Henda frá sér verkefnum ef maður finnur einkenni örmögnunar. Passa upp á sig.”

*,,Fækka verkefnum.”

*,,Minnka kröfur á okkur sjálfar.”

*,,Burt með snjallúr.”

*,,Kunna að velja og hafna. Vera meðvituð um hvenær við erum að sogast inn í samanburð og ósýnilegar kröfurnar á samfélagsmiðlum.”

*,,Gott að hitta annað fólk og ræða málin.”

*,,Sem yfirmaður muna að maður getur sjálfur verið streituvaldur.”

*,,Virða grunnþarfirnar svefn og næringu.”

*,,Biðja um hjálp t.d. frá maka og stuðningsneti.”

*,,Búa til góða rútínu fyrir svefninn. Fara snemma í háttinn.”

*,,Gagnlegt að hitta aðrar konur og fá samstöðu en kannski óþarfi að vera í fjórum saumaklúbbum.”

*,,Búa til sína eigin dagskrá.”

*,,Draga úr notkun samfélagsmiðla.”

*,,Muna að það tekur tíma að vera manneskja. Það tekur tíma að setja í þvottavélina og gera þessi daglegu verk. Ekki ofhlaða á verkefnalistann dagsins.”

*,,Njóta samveru í vinnunni. Tala saman.”

*,,Hafa fjölskyldukvöld og ræða við maka og fjölskyldu.”

*,,Hreyfa sig reglulega.”

*,,Kona mundu: Það er gott að borða. Það er í lagi að borða.”

*,,Sleppa tökunum. Deila út verkefnum. Ekki vera ,,Þroskaþjófur”. Ekki vera með alla bolta á lofti.”

*,,ANDA”

*,,Muna þessar spurningar fyrir hvert verkefni: Get ég, hef ég tíma, langar mig?”

*,,Þekkja líkamleg mörk.”

*,,Ekki vera í 200% starfi.”

*,,Ekki taka símann með upp í rúm.”

*,,Finna ástríðuna sína.”

Hvað þarf samfélagið að gera til að koma í veg fyrir kulnun/örmögnun kvenna?

*,,Hækka þarf laun kvenna svo konur í hefðbundnum kvennastörfum þurfi ekki að vinna tvö til þrjú launuð störf.”

*,,Vinnuálag kvennastétta á lágum töxtum er ekki boðlegt lengur. Það þarf að manna stöður þegar einhver veikist – ekki láta það lenda á hinum sem mæta.”

*,,Yfirmenn mega hafa það í huga að sífelldar breytingar á vinnustöðum eru streituvaldandni.”

*,,Minna er betra. Þetta á við um minni neyslu og minna af öllu í lífinu. Loftslagsvandinn mun kenna okkur að lifa öðruvísi og að minna er betra.”

*,,Konur eiga ekki einar að taka að sér ,,seinni vaktina” – karlmenn þurfa að koma meira inn í ólaunuðu störfin heima fyrir þ.e. seinni vaktina.”

*,,Köllum hlutina sínu réttu nöfnum: ,,Nám ofan á vinnu” en ekki nám með vinnu.”

*,,Karlmenn þurfa að taka sitt fæðingarorof.”

*,,Stéttarfélög geta skorað á fyrirtæki og stofnanir að setja reglur um notkun tölvupósts utan vinnutíma. Skerða þarf flæði vinnutengdra tölvupósta inn í einkalíf fólks.”

*,,Styrkja þarf grunnstofnanir samfélagsins svo velferðarþjónusta verði ekki í raun ólaunuð vinna á herðum kvenna.”

*,,Atvinnurekendur þurfa allir að skilja að sveigjanlegur vinnutími bætir lífsgæði fólks.”

*,,Til fyrirmyndar þar sem boðið er upp á núvitundaræfingar á vinnustöðum.”

*,,Heilbrigðiskerfið þarf að axla ábyrgð en ekki senda fólk heim á ábyrgð ættingja sem geta bognað undan álagi.”

*,,Hvað þýðir óunnin yfirvinna? Getur skapað óvissu og torveldað starfsfólki að setja mörk.”

*,,Umhverfið/samfélagið þarf líka að bera ábyrgð. Einstaklingurinn ber ekki einn ábyrgðina á að passa upp á mörk og jafnvægi milli einkalífs og vinnu.”

*,,Opnari umræða. Gæta þarf þess að ef fólk opnar sig um vanlíðan eða kulnun þá verði því ekki ýtt til hliðar eða bolað burt.”

*,,Betri almenningssamgöngur draga úr streitu. Tíðari ferðir strætó minnka stress.”

*,,Karlmenn hjóla meira – er konan þá heima að ,,gera skylduverkin og græja allt” því hann þarf að hafa tíma til að hjóla í vinnuna?”

*,,Atvinnulíf og grunnskóli þarf að spila saman en ekki vera tveir aðskildir heimar sem stangast á. Sveigjanleiki þarf að ríkja varðandi sumarfrí og vinnutíma (t.d. fyrir forelda leikskólabarna)”

*,,Konur eru meira í ,,púslinu” - karlmenn geta tekið virkari þátt í því.”

*,,Karlmenn eru tilbúnir að vinna með okkur en þeir lesa ekki hugsanir. Tjáum okkur.”

*,,Styttum vinnuvikuna en ekki á kostnað kaffitímans. Það er mikilvægt að eiga samræður við vinnufélaga.”