Langþráðar umbætur á vinnuumhverfi vaktavinnufólks loks í höfn

Stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki tekur gildi á morgun, 1. maí

30.4.2021

  • FelagsmennBHM

Á morgun, 1. maí, taka gildi breytingar á fyrirkomulagi vaktavinnu hjá opinberum aðilum í samræmi við ákvæði kjarasamninga sem undirritaðir voru á árunum 2019 og 2020. Þær felast annars vegar í styttingu vinnuvikunnar og hins vegar í því að launamyndun vaktavinnufólks mun taka mið af fleiri þáttum en áður. Um er að ræða viðamiklar umbætur á vinnuumhverfi vaktavinnufólks sem lengi hefur verið kallað eftir.

Vinnuvika starfsfólks í fullu starfi í vaktavinnu mun styttast úr 40 klukkustundum í 36 klukkustundir en í sumum tilvikum mun vinnuvikan styttast í allt að 32 stundir. Lengd styttingar í hverju tilviki mun ráðast af vaktabyrði, samsetningu vakta og öðrum þáttum. Vaktaálagsflokkum verður fjölgað og vægi vinnustunda metið eftir áhrifum á heilsu og öryggi starfsfólks. Þá verður greiddur sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölbreytileika og fjölda vakta.

Félagsmenn BHM í 6% stöðugilda sem breytingarnar ná til

Breytingarnar hafa verið lengi í undirbúningi í nánu samstarfi ríkis, sveitarfélaga, stéttarfélaga og heildarsamtaka þeirra. Þær ná samtals til um átta þúsund stöðugilda hjá ríki og sveitarfélögum en þar af fylla félagsmenn aðildarfélaga BHM rúmlega 450 stöðugildi eða um 6% af heildarfjöldanum.

Í raun er verið að umbylta fyrirkomulagi vaktavinnu hjá hinu opinbera. Rannsóknir hafa sýnt að vaktavinnufólk er oft undir mjög miklu álagi og er hættara við heilsubresti en fólki sem vinnur dagvinnu. Breytingunum er ætlað að stuðla að betri heilsu og öryggi vaktavinnufólks og auka möguleika þess á að samþætta betur vinnu og einkalíf. Þá er markmiðið að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari, stöðugleiki í mönnun stofnana aukist og dregið verði úr yfirvinnu. Loks er það markmið breytinganna að bæta öryggi og þjónustu við almenning.

Við hæfi að breytingarnar taki gildi 1. maí

Jóhann Gunnar Þórarinsson, formaður BHM, segir að breytingarnar hafi mikla þýðingu fyrir þá félagsmenn aðildarfélaga bandalagsins sem þær ná til:

Við fögnum því að þessar langþráðu umbætur séu nú loksins í höfn. Fulltrúar okkar í starfshópum verkefnisins hafa unnið gríðarlega gott starf og eiga hrós skilið. Svo er líka einstaklega vel við hæfi að breytingarnar taki gildi á morgun, 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi launafólks.

Jóhann Gunnar Þórarinsson


Vinnan heldur áfram

Stýrihópur skipaður fulltrúum allra aðila hefur haldið utan um vinnuna en einnig eru starfandi sérstakur matshópur og þrír innleiðingarhópar (ríki, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg). Allir þessir hópar munu starfa áfram á gildistíma kjarasamninganna og fylgja verkefninu eftir.

Fulltrúi BHM í stýrihópnum er Maríanna H. Helgadóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN). Fulltrúi bandalagsins í innleiðingarhópi fyrir ríkið er Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga (FG). Fulltrúi í innleiðingarhópi fyrir Reykjavíkurborg er Anna Lilja Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Þroskaþjálfafélags Íslands (ÞÍ). Fulltrúi í innleiðingarhópi fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga er Laufey S. Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands (ÞÍ) og fulltrúi í matshópnum er Alda Margrét Hauksdóttir, formaður Félags lífeindafræðinga (FL).

Nánari upplýsingar um breytingarnar má nálgast hér 


Fréttir