Lántakendur eiga ekki að niðurgreiða styrki til þeirra sem komast af án námslána

Umsögn BHM um frumvarp til laga um námslán og námstyrki

1.9.2016

Bandalag háskólamanna (BHM) telur jákvætt að leitast sé við að gera styrkveitingar ríkisins til námsmanna gagnsærri en þær eru nú, líkt og gert er í frumvarpi til laga um námslán og námsstyrki. Hins vegar megi kerfið ekki vera með þeim hætti að lántakendur niðurgreiði styrki til þeirra sem komist af án námslána. Þetta kemur fram í umsögn bandalagsins um frumvarpið sem send hefur verið allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.

Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp blandað kerfi styrkja og lána til námsmanna. Að mati BHM er þetta gott fyrirkomulag sem myndi færa námslánakerfið hér á landi nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Aftur á móti leggst bandalagið gegn því að styrkjum verði útdeilt jafnt til allra námsmanna, eins og lagt er til í frumvarpinu. Æskilegt sé að styðja sérstaklega við þá hópa sem helst þurfi á aðstoð ríkisins að halda og efla þannig félagslegt hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).

Vaxtastig mjög hátt í norrænum samanburði

Frumvarpið kveður á um að námslán skuli almennt vera verðtryggð til 40 ára með 2,5% vöxtum auk vaxtaálags sem jafngildi væntum afföllum af endurgreiðslu lánanna. BHM bendir á að verði frumvarpið að lögum muni vaxtastig námslána hérlendis verða mjög hátt samanborið við önnur norræn ríki. Bandalagið lýsir áhyggjum af þeirri framtíðarsýn sem birtist ungu námsfólki í frumvarpinu.

Afnám tekjutengingar afborgana gagnrýnt

Í umsögninni er gagnrýnt að afnema eigi tekjutengingu afborgana, eins og lagt er til í frumvarpinu. Lýst er þungum áhyggjum af greiðslubyrði yngsta aldurshóps lántakenda, verði frumvarpið að lögum, einkum einstaklinga sem tilheyra láglaunastéttum háskólamenntaðra og þeirra sem standa félagslega veikt að vígi. Bent er á að BHM hafi lengi gagnrýnt að lánsupphæðir fari eftir félagslegri stöðu lántakenda. Í núverandi kerfi sitji fjölskyldufólk og einstæðir foreldrar uppi með hærri námslánaskuldir að loknu námi en þeir sem barnlausir eru: „Verði afnám tekjutengingar að veruleika verður þetta vandamál enn alvarlegra þar sem barnafólk mun eftir að námi lýkur bera hærri greiðslubyrði en barnlausir,“ segir í umsögn BHM.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.


Fréttir