Launafólk sniðgengið við mat á efnahagslegum áhrifum sóttvarna

Sameiginleg yfirlýsing BHM, ASÍ og BSRB

28.8.2020

  • forystukonur
    Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB; Drífa Snædal, forseti ASÍ; og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Bandalag háskólamanna, Alþýðusamband Íslands og BSRB hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem því er mótmælt að launafólk skuli ekki eiga fulltrúa í starfshópi fjármála- og efnahagsráðherra sem falið hefur verið að greina efnahagsleg áhrif sóttvarnaraðgerða.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Forystukonur ASÍ, BHM og BSRB mótmæla því harðlega að fjármálaráðherra ætli ekki að hafa fulltrúa launafólks með í ráðum við mat á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnarmálum.

Við köllum eftir því að starfshópur fjármálaráðherra sem vinna mun reglulegar greiningar á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnarmálum verði breikkaður þannig að sjónarmið fleiri en atvinnurekenda fái að koma þar fram. Það er gamaldags viðhorf að efnahagsmál snúist fyrst og fremst um fyrirtæki en ekki heimili og almenning.

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins um skipan starfshópsins er tekið fram að hann eigi að taka tillit til ólíkra samfélagshópa og geira hagkerfisins. Þar hefur fulltrúi stórfyrirtækja, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, verið kallaður til en fulltrúar launafólks eru víðs fjarri. Þetta er til marks um rörsýn fjármálaráðherra í efnahagsmálum, sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag til framtíðar.

Við krefjumst þess að fjármálaráðherra boði fulltrúa launafólks að borðinu þegar í stað. Að öðrum kosti verða tillögur starfshópsins og vinna hans ómerk.

Drífa Snædal, forseti ASÍ

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM


Fréttir