Launaskekkjan lagar sig ekki sjálf

Ævitekjur kvenna og karla verða að vera sambærilegar ef við ætlum að vera réttlátt og sanngjarnt samfélag.

12.10.2021

BHM fagnar skýrslu forsætisráðuneytisins um verðmætamat kvennastarfa. Í nýlegri umsögn bandalagsins um skýrsluna segir að staðan sé óásættanleg. Það þurfi meiri og markvissari aðgerðir en jafnlaunavottun til að ná fram jöfnum launum. 

BHM styður tillögu um að settur verði á laggirnar sérstakur aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti með aðilum vinnumarkaðarins. Jafnframt styðir BHM að hópurinn sinni eftirfarandi verkefnum:

  • Komi á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa með því markmiði að skapa verkfæri sem fangar jafnvirðisnálgun laganna.
  • Þrói samningaleið um jafnlaunakröfur með aðilum vinnumarkaðarins. Þar verði m.a. horft til áhrifa breytinga á ráðningasamböndum og útvistun starfa á launamun kynjanna.
  • Þekkingaruppbyggingu og vitundarvakningu.
Ævitekjur kvenna eru 20% lægri en karla, konur bera skarðan hlut frá borði gegnumsneitt í samfélaginu. Skýringarnar eru m.a. sögulegt vanmat á virði starfa sem konur hafa í meirihluta sinnt í gegnum tíðina, oft launalaust. Þessi skekkja lagar sig ekki sjálf. Til þess þarf markvissar aðgerðir og BHM telur aðgerðirnar sem lagðar eru til í skýrslunni bæði rökréttar og skynsamlegar. Ævitekjur kvenna og karla verða að vera sambærilegar ef við ætlum að vera réttlátt og sanngjarnt samfélag.

Hér er hægt að lesa umsögn BHM í heild sinni. 


Fréttir