Launaþróun undanfarinna ára og kjararáð rædd á uppýsingafundi

27.1.2018

BHM stóð fyrir opnum upplýsingafundi í gær þar sem fjallað var um launaþróun undanfarinna ára og fyrirkomulag launaákvarðana kjörinna fulltrúa og embættismanna hér á landi. Frummælendur voru Guðfinnur Þór Newman, fulltrúi í stjórn BHM, og Sigurður H. Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, stýrði fundinum.

Í erindi sínu fór Guðfinnur Þór Newman yfir launaþróun allra viðsemjenda ríkisins og bar saman ólíka hópa á tímabilinu 2006 til 2017 og tímabili hins svokallaða rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins, frá 2013 til 2018. Fram kom í máli hans að á tímabilinu 2006 til 2017 hefðu meðaldagvinnulaun sumra aðildarfélaga BHM hækkað með svipuðum hætti og launavísitala Hagstofunnar en annarra aðildarfélaga hækkað töluvert minna. Þá benti Guðfinnur Þór á að meðaldagvinnulaun ýmissa hópa utan BHM hefðu hækkað verulega umfram það viðmið sem felst í rammasamkomulaginu en samkvæmt því áttu launahækkanir ekki að fara umfram 32% á tímabilinu. Þar er um að ræða hópa ríkisstarfsmanna, starfsmanna sveitarfélaga, hópa sem heyra undir kjararáð og hópa á almennum vinnumarkaði. Það skyti því skökku við að ríkið vísaði til „rammans“ í kjaraviðræðum við aðildarfélög BHM á sama tíma og aðrir hópar hefður hækkað umfram 32%, ekki síst í ljósi þess að BHM á ekki aðild að rammasamkomulaginu. 

Sigurður H. Helgason fjallaði í erindi sínu um launaákvarðanir þjóðkjörinna manna og embættismanna hér á landi og í nágrannalöndunum. Hann sagði að ekkert fyrirkomulag væri óumdeilt. Ýmsar aðferðir hefðu í tímans rás verið notaðar hér á landi til að ákvarða laun þjóðkjörinna, dómara og embættismanna. Sigurður benti á að ýmsir veikleikar væru á núverandi fyrirkomulagi þar sem kjararáð ákvarðar laun kjörinna fulltrúa og hluta embættismanna ríkisins. Leitast hafi verið við að taka á þessum veikleikum í nýjum lögum sem sett voru á síðasta ári en samkvæmt bráðbirgðaákvæði laganna væri enn verið að afgreiða erindi til kjararáðs samkvæmt gömlu lögunum. Þá benti Sigurður á að fyrirkomulagið hér á landi væri einstakt. Hvergi í nágrannalöndunum væri tilteknu ráði falið að taka einhliða ákvörðun um launakjör þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna.

 

 

  


Fréttir