Lenging fæðingarorlofs stórt framfaraskref fyrir börn og fjölskyldur landsins

Umsögn BHM um frumvarp til nýrra laga um fæðingar- og foreldraorlof

7.12.2020

  • pexels-laura-garcia-3617851

„BHM styður lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og telur að með því sé stigið stórt framfararskref fyrir börn og fjölskyldur þessa lands enda er fyrirkomulag fæðingarorlofsmála einn af hornsteinum jafnréttis milli kynja í íslensku samfélagi.“ Þetta segir m.a. í umsögn BHM um frumvarp til nýrra laga um fæðingar- og foreldraorlof sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

Markmið gildandi laga um fæðingar- og foreldraorlof er tvíþætt: að barn njóti samvista við báða foreldra sína og að foreldrar geti samræmt fjölskyldulíf og þátttöku á vinnumarkaði. Frumvarpið felur ekki í sér breytingu hvað þetta varðar. Í umsögn BHM um frumvarpið er bent á að rannsóknir sýni að það sem eftir stendur af óútskýrðum launamun kynjanna megi að nokkru leyti rekja til fæðingarorlofstöku mæðra. Löng fjarvera frá vinnu á fyrri hluta starfsævinnar hafi neikvæð áhrif á stöðu einstaklinga á vinnumarkaði. BHM styður þá tilhögun, sem lögð er til í frumvarpinu, að hvort foreldri fái 6 mánaða sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs en geti framselt einn mánuð til hins foreldrisins.

Hámarksgreiðsla helmingi lægri en 2007

Í frumvarpinu er kveðið á um ýmis tilvik sem leitt geta til lengingar fæðingarorlofs eða heimildar til aukins framsals á rétti milli foreldra. Ákvæðin eru ítarlegri og taka til fleiri tilvika en gildandi lög og styrkja einkum stöðu einstæðra foreldra. BHM styður þessar breytingar. Hins vegar er í umsögninni bent á að mikilvægt sé að hækka hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi enda sé hún nú um helmingi lægri (48%) að raungildi en árið 2007.

Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem ráðherra skipaði á síðasta ári og var falið að endurskoða lögin um fæðingar- og foreldraorlof í heild sinni. Lögmaður BHM, Andri Valur Ívarsson, var fulltrúi bandalagsins í hópnum.

Fjallað er um ýmis fleiri atriði í umsögninni en talin eru upp hér að framan. Nálgast má umsögnina í heild sinni hér .


Fréttir