Afkoma hins opinbera verði ekki bætt með auknum skattaálögum á háskólamenntaða

Umsögn BHM um fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2022–2026

13.4.2021

  • munur_a_radstofunartekjum
    Smellið á myndina till að stækka hana.

BHM varar við því að tekjuskattur á háskólamenntaða verði hækkaður við útfærslu afkomubætandi ráðstafana í opinberum fjármálum á næstu árum, enda myndi það draga úr hvata fyrir fólk til að sækja sér háskólamenntun. Þá telur bandalagið mikilvægt að markmið um að stöðva skuldasöfnun og bæta afkomu hins opinbera komi ekki niður á getu þess til að tryggja velferð þeirra hópa sem kórónuveirukreppan hefur bitnað harðast á. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn bandalagsins um fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2022–2026.

Í fjármálaáætluninni kemur fram að stefna stjórnvalda á tímabilinu sé að styðja við hagkerfið þar til hagvöxtur hefur komist á gott skrið og bati hefur orðið á vinnumarkaði. Dregið verði úr stuðningi stjórnvalda við efnahagslífið á næsta ári og fjárhagsstaða ríkissjóðs svo efld með stöðvun skuldasöfnunar fyrir lok ársins 2025. Einnig er í áætluninni fjallað um fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda til að bæta afkomu hins opinbera.

BHM varar við því að tekjuskattur á háskólamenntaða verði hækkaður til að bæta afkomu hins opinbera á næstu árum enda myndi það almennt draga úr hvata fólks til að sækja sér háskólamenntun. Í þessu sambandi bendir BHM á að munur milli ráðstöfunartekna háskólamenntaðra og þeirra sem eingöngu hafa lokið grunnskóla er mun minni hér á landi en í öðrum ríkjum Evrópu. Því má segja að fólk hér á landi hafi minni hvata til að sækja sér háskólamenntun en fólk annars staðar í álfunni.

Hætt við að stjórnvöld fórni efnahagslegum stöðugleika

Í umsögn BHM er bent á að verði efnahagsbatinn minni en stjórnvöld gera ráð fyrir sé ekki skynsamlegt að stefna að stöðvun skuldasöfnunar fyrir árslok 2025:

Hætt er við að stjórnvöld fórni efnahagslegum stöðugleika og aðgerðum til að tryggja velferð þeirra sem verst koma undan kófi í nafni sjálfbærni á árunum 2023–2025. Vissulega skiptir sjálfbærni fjármála hins opinbera miklu til lengri tíma en varasamt er að geta stjórnvalda til sveiflujöfnunar á árunum 2023–2025 takmarkist um of af stöðvun vaxtar skuldahlutfallsins.

Stóra verkefnið að vinna bug á atvinnuleysinu

BHM bendir á að efnahagsáfallið vegna kófsins hafi verið þyngra hér á landi en víðast annars staðar í heiminum. Líklegt sé að áhrif kórónukreppunnar vari langt inn í þennan áratug. Stóra verkefnið framundan sé að vinna bug á atvinnuleysinu. Fjöldi háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá hafi nær fimmfaldast á síðustu þremur árum og hætt sé við að framleiðslugeta hagkerfisins skaðist varanlega ef stjórnvöld grípi ekki til sértækra aðgerða. Mikilvægt sé að unnið verði gegn langtímaatvinnuleysi og áhrifum þeirra ójöfnu byrða sem kreppan hefur lagt á þjóðina.

Umsögn BHM um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026


Fréttir