Markmiðin enn þau sömu þótt aðferðirnar hafi breyst

8.5.2019

  • IMG_0144-002-
  • stjornin_lmfi
    Stjórn LMFÍ (frá vinstri): Inga Sigríður Árnadóttir, Hafdís Guðnadóttir, Steina Þ. Ragnarsdóttir, Áslaug Íris Valsdóttir (formaður), Bergrún Jónsdóttir, Katrín S. Sigurgeirsdóttir, og Guðlaug María Sigurðardóttir.
  • setning-radstefnu-1
    Áslaug við setningu alþjóðlegrar ráðstefnu sem LMFÍ stóð að í Hörpu 2. til 4. maí sl.
  • steinni-settur-vid-laugaveg
    Minningarsteinn við Laugaveg 20 vígður 2. maí sl.

Ljósmæðrafélag Íslands var stofnað 2. maí 1919 og fagnar því 100 ára afmæli um þessar mundir. Af þessu tilefni svaraði formaður félagsins, Áslaug Íris Valsdóttir, spurningum bhm.is.

Hvernig er að vera formaður í 100 ára gömlu félagi?
„Það er mér mikill heiður að vera formaður í elsta fag- og stéttarfélagi menntaðra kvenna á Íslandi. Í félaginu er mikið líf þótt það sé orðið aldargamalt.“

Hvað hefur helst breyst í starfsemi félagsins á þessum 100 árum?
„Í grunninn er hugmyndin að baki félaginu enn sú sama og í upphafi. Þær 20 ljósmæður sem stofnuðu félagið gerðu það til að efla hag ljósmæðrastéttarinnar og standa vörð um kjör ljósmæðra. Einnig til að glæða áhuga þeirra á faginu og efla þekkingu þeirra á öllu því er að starfi ljósmæðra laut. Þessi markmið eru ennþá í fullu gildi þótt félagið beiti öðrum aðferðum nú en áður fyrr.“

Hverju hefur félagið helst áorkað eða komið til leiðar á þessum 100 árum?
„Ég vil í fyrsta lagi nefna menntunarmálin. Félagið hefur unnið ötullega að því að efla og bæta ljósmóðurnámið. Í öðru lagi vil ég nefna alþjóðlegt samstarf. Við erum orðnar mjög vel þekktar á alþjóðavettvangi og tökum mikinn þátt í ýmsu erlendu samstarfi, m.a. rannsóknarstarfi. Í þriðja lagi vil ég nefna útgáfumálin. Við gefum út elsta tímarit landsins sem hefur komið út undir sama nafni í nær 100 ár. Loks eru það auðvitað blessuð kjaramálin. Við höfum háð nokkur stríð þar og baráttan mjakast áfram þótt að maður sé aldrei fullkomlega ánægður.“

Hvað hefur félagið gert (eða ætlar að gera) til að minnast þessara merku tímamóta?
„Á þessu ári hefur verið mikið um dýrðir. Við héldum mjög skemmtilega málstofu í janúar undir yfirskriftinni „Frá fortíð til framtíðar”. Svo buðum við ljósmæðrum í bröns og spjall í byrjun mars og héldum afmælishóf um svipað leyti. Á sjálfan afmælisdaginn, 2. maí, vígðum við sérstakan minningarstein í gangstéttinni við Laugaveg 20 en þar var félagið stofnað. Þann dag hófst líka alþjóðleg ráðstefna sem ríflega 700 manns sóttu frá 27 þjóðlöndum. Ráðstefnan stóð til 4. maí og tókst mjög vel. Daginn eftir, 5. maí, á alþjóðadegi ljósmæðra, var sýning undir yfirskriftinni „Ljósmæðrafélag Íslands 100 ára. Við tökum vel á móti þér“ opnuð í Þjóðarbókhlöðunni. Hún mun standa út árið. Aðalfundur félagsins er á næsta leyti og munum við hafa hann veglegri en oft áður enda verður þetta hundraðasti aðalfundur félagsins. Þá má nefna að við ætlum að gefa út app sem heitir Fylgja og er fyrir ljósmæður. Þar verða ýmsar gagnlegar upplýsingar varðandi fagið og félagið og þar munu ljósmæður geta haft samskipti við félagið. Loks erum við að gefa út sögu félagsins og ljósmæðratal og kemur hvort tveggja út síðar á árinu. Þannig að það er mikið um að vera hjá okkur.“