Meirihlutinn vill semja um laun í kjarasamningum

29.6.2016

Um 58% svarenda í nýlegri kjarakönnun BHM vilja að samið sé um laun þeirra í kjarasamningum stéttarfélags og vinnuveitanda en um 34% svarenda hugnast betur að semja sjálf um laun sín við vinnuveitanda. Þótt ríflegur meirihluti telji að semja beri um laun í kjarasamningum telja um 48% svarenda sig myndu fá hærri laun ef þau semdu sjálf beint við vinnuveitanda sinn. Könnunin var gerð af fyrirtækinu Maskínu í mars og apríl sl. og náði til félagsmanna BHM sem voru í starfi 1. nóvember 2015, rúmlega 12.000 manns. Svarendur voru um 4.800 og var svarhlutfallið því um 40%.

Í könnuninni var einnig m.a. spurt um afstöðu til þess að lífeyrisréttindi landsmanna verði jöfnuð. Um 42% svarenda sögðust frekar eða mjög hlynnt slíkri breytingu en 23% voru á móti. Þá leist um 29% svarenda fremur eða mjög vel á að hækka eftirlaunaaldur í 70 ár í áföngum en um 44% leist illa á slíka breytingu. 

Enn fremur voru þátttakendur spurðir álits á því hvað BHM ætti að leggja mesta áherslu á. Gefnir voru upp nokkrir svarmöguleikar og voru þátttakendur beðnir um að velja þrjá þeirra og raða í mikilvægisröð. Í heildarmati hlaut svarmöguleikinn „Hækkun launa og kaupmáttar“ flest stig, „Stytting  vinnuviku“ næstflest stig og „Lífeyrisréttindi“ lenti í þriðja sæti.

Hvað af eftirtöldu finnst þér að BHM ætti að leggja mesta áherslu á?  stig
 Hækkun launa og kaupmáttar  38,2
 Stytting vinnuviku  22,7
 Lífeyrisréttindi  15,7
 Endurgreiðsla námslána  10,5
 Önnur kjör en þau sem hafa verið nefnd hér (t.d. veikindaréttur, orlofsréttur, námsleyfi o.fl.)  7,3
 Fjölbreyttari húsnæðis- og leigumarkað  4,7

Nálgast má niðurstöður kjarakannana BHM hér.Fréttir