Menntun kvenna undirverðlögð hjá sveitarfélögum

40 prósent launamunur er milli sveitarfélaga og almenns markaðar hjá háskólamenntuðum sérfræðingum.

9.9.2021

  • haskolanemar

Mikill launamunur var milli markaða hjá háskólamenntuðum sérfræðingum árið 2020, samkvæmt greiningu BHM. Ríkið greiddi að jafnaði 25 prósent lægra tímakaup til sérfræðinga en fyrirtæki á almennum markaði. Sveitarfélög greiddu 40 prósent lægra tímakaup. 83 prósent háskólamenntaðra sérfræðinga hjá sveitarfélögum eru konur.

Menntun virðist þannig síður metin til launa hjá sveitarfélögum en á öðrum mörkuðum. Margir þessara sérfræðinga eiga langt háskólanám að baki og sinna þjóðhagslega mikilvægum störfum eins og þroskaþjálfun, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og kennslu í grunnskólum svo fátt eitt sé nefnt. Þessi staða er mikið áhyggjuefni. Ekki síst vegna þess að fylgni virðist vera milli lágs launastigs sveitarfélaga og stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.

Árið 2016 sömdu ríki, sveitarfélög og heildarsamtök launafólks um að kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði yrðu jöfnuð eins og kostur er. Markmiðið var að tryggja að ekki yrði kerfislægur launamunur milli markaða til frambúðar. Erfiðlega hefur gengið að ná samkomulagi um þessi mál, sér í lagi um kjör kvennastétta. BHM hvetur stjórnvöld til að bregðast við. Horfa þarf til nýrra tillagna starfshóps forsætisráherra um endurmat á virði kvennastarfa og samkomulags um jöfnun launa. 

Smellið hér til þess að hlaða niður pdf af greiningunni.


Fréttir