Chat with us, powered by LiveChat

Mikill meirihluti félagsmanna hlynntur því að stytta vinnuvikuna

16.8.2017

  • mynd_med_frett3

Um 92% svarenda í könnun sem nýlega var gerð meðal félagsmanna aðildarfélaga BHM eru hlynnt því að vinnuvikan verði stytt í 37,5 stundir ef það skerðir ekki kjör þeirra. Flestir (41%) telja að sér myndi henta best að vinna einn dag í viku til hádegis ef vinnuvikan yrði stytt með þessum hætti en 29% telja að sér myndi henta best að hætta hálftíma fyrr á hverjum vinnudegi. Um 17% vilja vinna lengur fjóra daga vikunnar og eiga frí einn dag.

BHM og önnur heildarsamtök launafólks hafa lagt áherslu styttingu vinnuvikunnar í viðleitni til að skapa fjölskylduvænan vinnumarkað og auðvelda fólki að samræma störf og einkalíf. Í þessu sambandi má nefna að BSRB hefur í samstarfi við bæði Reykjavíkurborg og ríkið gert tilraunir með styttingu vinnuvikunnar á völdum vinnustöðum sem þykja hafa gefið góða raun.

Fjórðungur vill leggja mesta áherslu á styttingu vinnuvikunnar

Um þessar mundir búa 17 aðildarfélög BHM sig undir að hefja samningaviðræður við ríkið en gildistími gerðardóms frá 2015 rennur út í lok mánaðar. Í könnuninni var m.a. spurt hvað aðildarfélög BHM ættu að leggja mesta áherslu á við gerð næstu kjarasamninga. Rúmlega helmingur svarenda vill að mest áhersla verði lögð á hækkun launa og kaupmáttar en um fjórðungur telur að leggja eigi mesta áherslu á styttingu vinnuvikunnar.

Könnunin var gerð af fyrirtækinu Maskínu ehf. dagana 5. maí til 28. júní sl. og náði til handhófsúrtaks úr félagaskrám aðildarfélaga BHM sem eru 27 að tölu. Svarendur voru 2.232 en samtals eru um 13 þúsund manns innan raða félaganna. 


Fréttir