Mikill samdráttur í íslenskum menningargreinum

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft margfalt meiri áhrif á menningargreinar en aðrar atvinnugreinar. Starfslaun listamanna eru með lægstu launum á íslenskum markaði.

5.10.2021

Umsvif í menningargreinum eru á hraðri niðurleið í íslensku  hagkerfi. Mikill samdráttur hefur orðið í launagreiðslum og fjölda starfandi í skapandi greinum síðustu ár. Starfslaun listamanna hafa dregist langt aftur úr almennri launaþróun og eru nú með lægstu launum á íslenskum markaði.

Hrunið og heimsfaraldur hafa haft gríðarleg áhrif á skapandi greinar hér á landi. Þar hefur orðið mikill samdráttur í heildarlaunagreiðslum og fjölda starfandi fólks frá 2008. Nú er svo komið að 25% færri starfa við menningargreinar en 2008. Á sama tímabili hefur þar orðið 40% samdráttur í heildarlaunagreiðslum. Verulega tók að draga í sundur með skapandi greinum og öðrum atvinnugreinum eftir 2013 og samdrátturinn jókst til muna eftir 2017. Þetta er meðal þess sem má lesa úr menningarvísum Hagstofu Íslands og gögnum um kjör listamanna á Íslandi.

Á síðustu fjórum árum hefur þróunin verið mjög hröð. Heildarlaunagreiðslur í fjölmiðlum hafa dregist saman um 45% frá árinu 2017, samdrátturinn var 41% í kvikmyndagreinum og um 26% innan tónlistargeirans. Samdráttur í mörgum greinum var hafinn nokkuð fyrir heimsfaraldur en efnahagsáfallið í kjölfar hans bætti gráu ofan á svart.

Meirihluti listamanna á að baki nám á háskólastigi. Þrátt fyrir það voru starfslaun listamanna talsvert undir launum fullvinnandi verkafólks árið 2020. Starfslaun listamanna hafa dregist langt aftur úr almennri launaþróun á undanförnum árum. Á síðustu tíu árum hefur launavísitalan hækkað um 96% á meðan starfslaun listamanna hafa hækkað um 49%. Lág laun gætu skýrt hluta af samdrætti í einstaka greinum, meðal annars í útgáfu og framleiðslu íslenskra bóka. Árið 2019 voru gefnar út 3,4 íslenskar bækur á hverja þúsund íbúa samanborið við 5,2 bækur árið 2011.

Mikilvægt er að hið opinbera marki stefnu um aukinn stuðning við menningu á Íslandi. Að öðrum kosti er hætt við að menningargreinar beri varanlegan skaða af heimsfaraldri. Horfa ætti til Norðurlandanna í þeim efnum.

Hér er hægt að skoða greiningu BHM. 


Fréttir