Mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að koma í veg fyrir að íslenska hagkerfið verði fyrir varanlegum skaða af faraldrinum og að búa í haginn fyrir framtíðina

Umsögn BHM um frumvarp til fjárlaga 2021 og fjármálaáætlun 2021-2025

20.10.2020

Í frumvarpi til fjárlaga er sagt að markmið ríkisfjármálastefnunnar sé að styðja við hagkerfið, bjarga störfum, verja heimilin og skapa viðspyrnu í kjölfar kreppu af völdum heimsfarsóttar. Áherslan skuli lögð á öflugar aðgerðir til stuðnings fólki og fyrirtækjum með það að leiðarljósi að íslenskt samfélag komist eins hratt úr kreppunni og kostur er á. Bandalag háskólamanna fagnar þessum áherslum stjórnvalda á tímum eins mesta samdráttarskeiðs í sögu þjóðarinnar. Hafa ber þó í huga að óvissan um efnahagsframvindu og ferli hennar er meiri en nokkru sinni áður.

Hér að neðan er tæpt á helstu atriðum umsagnarinnar, en hana má lesa í heild sinni hér.

 • Forsendur þess að lækka fjárframlög til málaflokksins „vinnumarkaður og atvinnuleysi“ úr 4% í 2% af vergri landsframleiðslu virðast brostnar. Atvinnuleysi á árinu 2020 jókst langt umfram spár og eru engin dæmi til um jafn mikið atvinnuleysi á Íslandi síðan mælingar hófust.
 • BHM telur mikilvægt að stjórnvöld marki stefnu um sértækar stuðningsaðgerðir við atvinnulausa m.t.t. stöðu mismunandi menntunarflokka, landsvæða, kynja og aldurs.
 • Jafnframt er nauðsynlegt að lengja tekjutengda tímabil atvinnuleysistrygginga, hækka hámark tekjutengdra bóta enn frekar a.m.k. tímabundið og rýmka námsheimildir enda sé það hluti af virkniúrræðum fyrir ungt fólk.
 • BHM hvetur stjórnvöld til að endurskoða ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar er varðar tryggingarhlutfall sjálfstætt starfandi í atvinnuleysistryggingakerfinu. Tryggingahlutfall fjölmargra sjálfstætt starfandi einstaklinga er lægra en fjölmargra launþega nú um stundir þrátt fyrir að einstaklingur hafi stundað fullt starf á síðustu misserum.
 • Aukning hefur verið í fjölda þeirra sem leita eftir starfsendurhæfingu á sama tíma og tekjur eru á niðurleið. Álagið mun aukast á næstu 12 mánuðum og vill BHM hvetja stjórnvöld til að hækka framlög sín til málaflokksins sem og auka fjárheimildir til málaflokksins „náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur“.
 • Fjölga þarf úrræðum á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar og tryggja þverfaglega þjónustu í heilsugæslu og félagsþjónustu.
 • Viðnám sveitarfélaga fyrir tekjuskerðingu ársins 2020 og efnahagslegum samdrætti næstu missera er lítið sem ekkert. Þjónustuþyngd félags- og velferðaþjónustu er mikil og þarf ríkissjóður að koma til móts við sveitarfélögin vegna þessa.
 • Bandalag háskólamanna hvetur stjórnvöld til að fara í gagngera endurskoðun á barnabótakerfinu með það í huga að stuðningurinn nái í meira mæli til barnafjölskyldna með lágar- og millitekjur.
 • BHM telur það áhyggjuefni að dregið sé úr rekstrarframlögum til styrkja á sviði lista- og menningar í fjárlögum 2021.
 • BHM fagnar áherslum ríkisstjórnarinnar um eflingu nýsköpunar á Íslandi en ljóst er að aukin fjölbreytni útflutningsatvinnuvega er ein meginforsenda hagvaxtar og aukins stöðugleika í íslensku hagkerfi til framtíðar.
 • BHM varar við því að gripið sé til veikingar á tekjustofnum ríkisins á árinu 2021 umfram það sem boðað er með breytingum í tekjuskattskerfinu. Slíkar aðgerðir munu skila sér í aukinni skattbyrði á launafólk á tímum viðspyrnu og afkomubætandi ráðstafana.
 • Mikilvægasta verkefni stjórnvalda nú um stundir er að koma í veg fyrir að íslenska hagkerfið verði fyrir varanlegum skaða af faraldrinum um leið og búið er í haginn fyrir framtíðina.

Umsögnina má lesa í heild sinni á þessum hlekk.
Allar umsagnir BHM um frumvörp til laga má nálgast í gegnum þessa síðu.


Fréttir