Mikilvægt að breiðari sátt ríki um framtíð lífeyriskerfisins

Umsögn BHM um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum er varða lífeyrismál

4.5.2021

BHM telur mikilvægt að breiðari sátt ríki um framtíð lífeyriskerfisins en nú er. Þá telur bandalagið óljóst af hverju stjórnvöld vilja auka flækjustig kerfisins með innleiðingu svokallaðrar tilgreindrar séreignar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn bandalagsins um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæðum um tilgreinda séreign (lágmarkstryggingavernd o.fl.).

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verði a.m.k. 15,5% af iðgjaldsstofni í stað 12%. Heimilt verði að skipta hinu lögbundna lágmarksiðgjaldi þannig að allt að 3,5% geti farið í tilgreinda séreign. Hugmyndin um tilgreinda séreign varð upphaflega til í viðræðum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Að mati BHM er ótækt að ákvarðanir séu teknar af ASÍ og SA fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni enda stríðir það gegn frjálsum samningsrétti. Jafnframt telur BHM ámælisvert að ekki hafi verið haft víðtækara samráð við heildarsamtök á vinnumarkaði og aðra hagsmunaaðila við mótun frumvarpsins.

BHM hvetur stjórnvöld til að huga að umbótum í samráðsferli framtíðar en áframhaldandi samráðsleysi gæti orðið þjóðfélaginu dýrkeypt. […] Mikilvægt er að breiðari sátt ríki um framtíð kerfisins og stefnu en rangar ákvarðanir á þessu sviði, án samráðs við hagaðila og mats á kostnaði og ábata einstakra breytinga, munu hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir hag almennings og hagkerfisins alls til frambúðar. 

Óljóst af hverju stjórnvöld vilja auka flækjustigið

BHM telur séreignarþátt lífeyriskerfisins mikilvæga stoð sem skapi valfrelsi og nauðsynlega áhættudreifingu. Hins vegar telur bandalagið óljóst af hverju stjórnvöld hafa valið að auka flækjustig kerfisins frá því sem nú er með því að innleiða tilgreinda séreign í stað þess að styrkja aðrar stoðir þess, s.s. viðbótarlífeyrissparnað.

Ný tegund ójafnræðis í kerfinu

Í frumvarpinu er lagt til að tilgreind séreign muni ekki teljast til tekna við útreikning á greiðslum úr almannatryggingum né þegar tekin er ákvörðun um greiðsluþátttöku vegna öldrunarþjónustu. Hins vegar teljast greiðslur úr samtryggingarsjóði í báðum tilvikum til tekna. BHM mótmælir þessum mismun og telur að með honum skapist ný tegund ójafnræðis milli þeirra sem hafi getu og/eða vilja til að velja tilgreinda séreign og annarra í íslenska lífeyriskerfinu.

Nánar er fjallað um ofangreind atriði frumvarpsins í umsögn BHM auk þess sem þar er fjallað um ýmis önnur atriði frumvarpins.  


Fréttir