Mikilvægum áfanga náð en mörg verkefni bíða

Pistill Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í tilefni af samkomulagi um lífeyrismál opinberra starfsmanna

19.9.2016

  • Þórunn Sveinbjarnardóttir
    Þórunn

Ágætu félagar

Í dag undirritaði ég fyrir hönd BHM samkomulag um samræmingu og jöfnun lífeyrisréttinda á opinberum og almennum vinnumarkaði. Þar með er lokið viðræðuferli sem staðið hefur með hléum allt frá árinu 2009 þegar stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér stöðugleikasáttmála en þar var samþykkt að ráðast í heildarendurskoðun lífeyriskerfisins. Páll Halldórsson, fyrrverandi formaður BHM, hefur leitt lífeyrisvinnuna fyrir okkar hönd. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka honum þrotlaust starf í þágu réttindabaráttu háskólamanna og hans drjúga skerf í fyrirliggjandi samkomulagi.

BHM var frá upphafi hlynnt því að samræma lífeyrisréttindi landsmanna með það fyrir augum að auðvelda launasamanburð milli markaða og auka hreyfanleika launafólks á milli almenna og opinbera geirans. Jafnframt var ljóst að við gætum ekki sætt okkur við að slík samræming yrði á kostnað réttinda núverandi sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar. Í samræmi við þetta lögðum við megináherslu á að tryggja óbreytt réttindi þessa hóps. Að sama skapi vildum við tryggja hagsmuni framtíðarfélagsmanna okkar sem taka til starfa í nýju lífeyriskerfi.

Þegar viðræður hófust var óljóst hvernig þeim myndi lykta eða hvort niðurstaða næðist sem allir aðilar gætu unað við. Langur tími fór í að kanna ýmsar mögulegar lausnir og útfærslur. Niðurstaðan sem nú liggur fyrir er að mínu mati vel við unandi. Ég tel að okkur hafi í meginatriðum tekist að ná fram þeim markmiðum sem við settum okkur í viðræðunum. Niðurstaða meiri hluta formannaráðs BHM var að styðja samkomulagið og hafa þar með áhrif á með hvaða hætti færslan yfir í nýtt lífeyriskerfi fer fram. Stórum ákvörðunum fylgir alltaf óvissa en gleymum því ekki að án samkomulags hefði réttindum sjóðfélaga verið teflt í tvísýnu.

Í dag náðum við mikilvægum áfanga en mörg mikilvæg verkefni bíða okkar. Samkomulagið kallar á gjörbreytta launastefnu ríkis og sveitarfélaga. Með jöfnun lífeyriskjara á  milli markaða blasir við að bæta þarf opinberum starfsmönnum muninn í launum. Ella mun hið opinbera ekki geta keppt um vinnuafl við almenna markaðinn. Á komandi misserum mun BHM fylgja fast eftir ákvæðum samkomulagsins um jöfnun launa (7. kafli samkomulagsins) og huga sérstaklega að stöðu nýrra félagsmanna, þ.e. þeirra félagsmanna sem ganga að fullu inn í nýtt kerfi aldurstengdrar réttindaávinnslu.

Næstu dagar og vikur verða nýttar til að útbúa fræðsluefni um breytingarnar sem félagsmenn geta nálgast á netinu og aðildarfélög BHM nýtt til kynningar á samkomulaginu og breytingunum sem af því leiða.


Fréttir