Minni truflun í frítíma frá snjalltækjum

Jákvæð þróun samkvæmt niðurstöðum úr viðhorfskönnun BHM

25.6.2020

Í lok janúar á þessu ári gerði MMR viðhorfskönnun meðal félagsmanna allra aðildarfélaga BHM þar sem meðal annars var spurt út í snjalltækjaeign og ónæði vegna vinnu. Sambærileg könnun var gerð fyrir BHM árið 2017 og eru niðurstöðurnar þær að nokkur framför hafa orðið á tímabilinu.

Margir með snjalltæki frá vinnuveitanda

Meðal spurninga sem lagðar voru fyrir var hvernig snjalltækjaeign félagsmanna aðildarfélaganna væri háttað. Í ljós kom að stór hluti félagsmanna er með fartölvu, síma, spjaldtölvu eða annað snjalltæki frá atvinnuveitanda eða 64% en hlutfallið var 57% árið 2017.

Minni truflun nú en fyrir þremur árum

Félagsmenn voru spurðir út í truflun frá snjalltæki vinnuveitanda bæði nú og fyrir þremur árum. Þróunin í þeim efnum er jákvæð en árið 2017 kváðust um 55% oft verða fyrir slíkri truflun en nú fær aðeins þriðjungur (33%) oft skilaboð vegna vinnu í snjalltækið utan vinnutíma. Þá hefur fjölgað í hópi þeirra sem verða fyrir litlu sem engu áreiti, en árið 2017 sögðu rúmlega 50% truflun utan vinnutíma litla eða enga, en nú sögðu 66% að truflun væri lítil sem engin.

Þessum framförum ber að fagna og er ljóst að vinnuveitendur virða nú almennt betur mörkin milli vinnu og einkalífs starfsmanna en áður, eins og formaður BHM bendir á í þessari grein sem birtist í Fréttablaðinu nýlega. Það er hinsvegar ekki nóg að meðvitund sé um lífsgæði þess að geta aðskilið vinnu og frítíma. Því eru ákvæði í nýgerðum kjarasamningum BHM- félaga við ríkið sem skylda stofnanir til að setja sér viðverustefnu.

Könnunin var gerð af MMR dagana 14.–30. janúar 2020 og náði til félagsmanna allra 27 aðildarfélaga BHM sem eru samtals tæplega 16 þúsund. Svarhlutfallið var um 42%. Rétt er að taka fram að svör voru nokkuð mismunandi eftir aðildarfélögum, eftir aldri svarenda og fleiri bakgrunnsbreytum.

Hve-of-svarar-thu