Nauðsynlegt að breyta LSR-frumvarpi til að tryggja réttindi allra núverandi sjóðfélaga

4.10.2016

  • BHM_an_skriftar

BHM hefur sent fjárlaganefnd Alþingis umsögn um lagafrumvarp um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) þar sem gerðar eru athugasemdir við frumvarpið og lagðar fram tillögur um breytingar á því. Frumvarpið byggir á nýlegu samkomulagi milli annars vegar bandalaga opinberra starfsmanna og hins vegar ríkis og sveitarfélaga um framtíðarskipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði. Athugasemdir BHM eru í þremur liðum og lúta í meginatriðum að því að frumvarpið sé ekki fyllilega í samræmi við fyrrnefnt samkomulag. Nánar tiltekið telur BHM að frumvarpið tryggi ekki réttindi allra núverandi sjóðfélaga í A-deild sjóðsins, eins og samkomulagið kveður á um.

Í samkomulaginu felst að lífeyrisréttindi milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði samræmd og jöfnuð. Tekin verður upp svokölluð aldurstengd réttindaávinnsla í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna í stað jafnrar ávinnslu, eins og verið hefur. Aldurstengd réttindaávinnsla þýðir að sjóðfélagi ávinnur sér mismunandi réttindi eftir aldri. Þannig eru réttindi sem hann ávinnur sér framan af starfsævinni verðmætari en þau sem hann ávinnur sér síðar. Jöfn réttindaávinnsla þýðir aftur á móti að sjóðfélagi ávinnur sér jafnverðmæt réttindi alla starfsævina. Samkomulagið kveður á um að sjóðfélagar eigi að geta flutt sig milli vinnumarkaða og lífeyrissjóða hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi áhrif á réttindaávinnslu. Einnig að verðmæti réttinda núverandi sjóðfélaga skuli tryggð með sérstökum framlögum ríkisins til A-deildar. Þessi framlög eiga að standa straum af svokölluðum lífeyrisauka en honum er ætlað að bæta sjóðfélögum upp þann mismun sem er annars vegar á réttindum þeirra samkvæmt jafnri réttindaávinnslu og hins vegar aldurstengdri.

Í fyrsta lagi telur BHM mikilvægt að mælt sé fyrir um það í frumvarpinu að samþykktir LSR skuli kveða á um sömu og jafngóð réttindi sjóðfélaga og gert er í núgildandi lögum um sjóðinn. Í umsögn bandalagsins er lögð fram breytingartillaga við frumvarpið sem miðar að þessu.

Í öðru lagi telur BHM að frumvarpið tryggi ekki öllum núverandi sjóðfélögum rétt til lífeyrisauka óháð launagreiðanda, eins og samkomulagið gerir ráð fyrir. Í umsögninni er lögð fram breytingartillaga við frumvarpið til að tryggja þennan rétt.

Í þriðja lagi bendir BHM á að frumvarpið tryggi ekki að núverandi sjóðfélagar geti fært sig milli vinnumarkaða án þess að það hafi áhrif á rétt þeirra til lífeyrisauka. Bandalagið leggur til breytingu á frumvarpinu til að tryggja þennan sveigjanleika.


Fréttir