Kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna skipulagsbreytinga hjá LSH

9.6.2009

 

 

Landspítali-háskólasjúkrahús hefur undanfarið boðað grundvallabreytingar á vinnufyrirkomulagi og vinnutíma starfsmanna sinna með vísan til 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Breytingin felur það m.a. í sér að hjúkrunarfræðingum, sem réðu sig til spítalans sem dagvinnustarfsmenn, er gert að starfa á spítalanum í vaktavinnu.

 

Í kvörtuninni til umboðsmanns Alþingis er óskað eftir áliti hans á því, hvort það falli innan marka 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að breyta vinnutilhögun starfsmanns frá því að vera dagvinnumaður yfir í að vera vaktavinnumaður?“ Þess má geta að mikilvægt er að fá úr þessu skorið þar sem sams konar breytingar eru boðaðar gagnvart fleiri dagvinnustarfsmönnum á LSH. Má þar nefna náttúrufræðinga, geislafræðinga, lífeindafræðinga, o.fl. starfsmenn sem hafa valið sér upphaflega að starfa í dagvinnu.

 

Í því tilviki sem umboðsmaður Alþingis er fenginn til að gefa álit sitt á, var hjúkrunarfræðingurinn ráðinn árið 1999 í dagvinnu. Eins og áður segir eru breytingarnar þess eðlis að vinnutilhögun hjúkrunarfræðingsins breytist frá því að vera dagvinnumaður yfir í að verða vaktavinnumaður. Rökin fyrir því að undirrituð telur að breytingarnar falli ekki innan marka laga nr. 70/1996 eru þau að vaktavinna er starf sem skipt er niður á mismunandi vaktir samkvæmt ákveðnu kerfi, er oftar en ekki skipulagt alla daga vikunnar og getur náð yfir allan sólarhringinn. Mikill eðlismunur er á því hvort um dagvinnustarf eða vaktavinnustarf er að ræða og gilda allt aðrar reglur um vaktavinnustarfsmenn, t.d. með vísan til vinnuverndar og hvíldartímaákvæða og hvernig greitt er fyrir vaktavinnu. Sumir starfsmenn eiga erfitt með að skipta sér niður á vaktir og samræma vinnu og fjölskyldulíf.

 

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996 er starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Hefur forstöðumaður ríkisstofnunar, eða annar yfirmaður sem til slíks er bær samkvæmt skipulagi stofnunar, á grundvelli þessa ákvæðis heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanns. Hins vegar verður sú ákvörðun að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og má hún ekki vera meira íþyngjandi fyrir starfsmann en nauðsyn ber til.

 

Þegar starfsmaður ræður sig til starfa gerir hann ráðningarsamning um ákveðið starf við vinnuveitanda sinn og í tengslum við ráðningu er honum ætlað að vinna tiltekið verksvið. Í  tilviki hjúkrunarfræðingsins er um grundvallarbreytingu á vinnufyrirkomulagi frá því starfi sem hann er ráðinn til  samkvæmt ráðningarsamningi. 

 

Að mati undirritaðar er sú ákvörðun vinnuveitanda að breyta vinnufyrirkomulagi dagvinnustarfsmanns yfir í vaktavinnustarf sérstaklega íþyngjandi. Um er að ræða vinnufyrirkomulag á vöktum allan sólarhringinn með tilheyrandi álagi sem fylgir að vera í vaktavinnu eins og rannsóknir í vinnuvernd bera með sér. Starfsmaður tekur sjálfur ákvörðun um að ráða sig til starfa þar sem hann þarf ekki að ganga vaktir. Ástæðan fyrir slíkri ákvörðun getur verið af ýmsum toga, t.d. vegna fjölskylduástæðna, heilsufarsástæðna og annarra persónulegra ástæðna. 

 

Það er að mati undirritaðrar andstætt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að beita 19. gr. laga um réttindi og skyldur með framangreindum hætti, en 12. gr. stjórnsýslulaga hljóðar svo: „Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægari móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangara í sakirnar en nauðsyn ber til.“  Ber stjórnvaldi samkvæmt þessu að beita meðalhófi í ákvörðunum sínum og telur undirrituð að aðrar minna íþyngjandi leiðir hefðu verið tækar í stöðunni.

 

Það er mikilvægt að fá úr þessu álitaefni skorið sem allra fyrst og mun niðurstaða umboðsmanns Alþingis vera kynnt þegar hún liggur fyrir.

Erna Guðmundsdóttir,hdl. er lögmaður KÍ og BHM

 


Fréttir