Af meintum ofurlaunum ríkisstarfsmanna

2.12.2009

 

Í Viðskiptablaðinu birtust fyrir nokkru þær fregnir að meðallaun starfsmanna hjá ríkinu væru um 530.000 krónur á mánuði. Einhver mistök urðu við þann útreikning enda hægur vandi að fá réttar upplýsingar sem eru þær að meðalheildarlaun ríkisstarfsmanna eru um 455.000 krónur eða mjög svipuð og á almennum markaði skv. grein í Fréttablaðinu 30. nóvember. Í upplýsingum um laun ríkisstarfsmanna eru allir meðtaldir s.s. forsetinn, hæstaréttardómarar, læknar og einnig eru þar hin víðfrægu laun forsætisráðherra. Meðaldagvinnulaun hjá félagsmönnum BHM hjá ríkinu voru yfir tímabilið janúar til júní 2009 kr. 374.000 og heildarlaun þar sem við bætist m.a. vaktaálag og yfirvinna 467.000. Ef litið er til launakönnunar VR frá í byrjun árs eru laun hópsins „aðrir háskólamenntaðir sérfræðingar“ fyrir dagvinnu 429.000 og heildarlaun 460.000. Samanburður milli viðskipta- og hagfræðinga hjá ríki og innan VR sýnir að dagvinnulaun hjá ríkinu á sama tímabili eru 420.000 en 484.000 hjá VR og heildarlaun hjá ríki eru 533.000 en 548.000 hjá VR-félögum. Ef litið er til launa hjá ríki í júní sl. eru þau lægri en þetta meðaltal. Öll umræða um hin háu laun ríkisstarfsmanna er því úr lausu lofti gripin.

Ríkisstarfsmenn þekkja launalækkun á eigin skinni. Frá því í september 2008 og fram til mars 2009 lækkuðu yfirvinnugreiðslur um 23%, akstursgreiðslur voru skornar niður og miklu aðhaldi beitt í launakostnaði sem og í öðrum rekstri. Ekki skal úr því dregið að skera þarf niður kostnað alls staðar hjá ríkinu en bent skal á að af áætluðum útgjöldum ríkisins árið 2010 – að vaxtagjöldum frádregnum – eru laun um fjórðungur gjalda. Ef ríkið vill koma út úr þessari kreppu með hæft, gott og velmenntað starfsfólk er frekari skerðing launa ekki leiðin til þess. Þar sem ég þekki best til, í fjármálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og hjá Vinnumálastofnun vinnur fólk mikla sjálfboðavinnu. Þar eru margir starfsmenn á föstum launum sem vinna mikla vinnu án frekari greiðslu og tímakaup þeirra er komið langt undir kauptaxta. Hjá Alþingi hafa starfsmenn fengið þau skilaboð að það sé æskilegt að þeir vinni ekki eftir miðnætti og ekki á sunnudögum en þeir eru á föstum launum. Það er gott að það er unnin sjálfboðavinna í þágu þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu en ég fæ ekki séð að Alþingi eða ráðuneytin séu í þeim hópi.


Fréttir