Hækkunin sem enginn fékk?

24.3.2010

Nýverið kom fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands að launavísitala opinberra starfsmanna hefði hækkað um 7,1% milli áranna 2008 og 2009. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar og geta sagt okkur ýmislegt, enda hægt að ganga út frá því sem vísu að þær séu réttar, líkt og annað sem frá Hagstofu Íslands kemur.

 

Þessar staðreyndir segja okkur hins vegar ekki að laun allra opinberra starfsmanna hafi hækkað um 7,1% milli þessara ára, hvað þá heldur að kjör þeirra hafi batnað sem þessu nemur.

 

Ef nota á upplýsingar til að bera saman þróun kjara einstakra hópa getur það tímabil sem skoðunin nær yfir skipt meginmáli. Samningar opinberra starfsmanna hafa um langt skeið verið gerðir í kjölfar samninga á almennum vinnumarkaði. Þeir samningar sem voru gerðir á árinu 2008 komu að mestu leyti til framkvæmda á þriðja og fjórða ársfjórðungi 2008 sem skýrir 7,1% hækkun milli ára.

 

Ef litið er til hækkunar launavísitölu opinberra starfsmanna milli fjórða ársfjórðungs 2008 og fjórða ársfjórðungs 2009 er hækkunin 3,0% en hækkun launavístölu starfsmanna á almennum vinnumarkaði á sama tíma er 3,4%.

 

Ef kjaraþróun háskólamanna er skoðuð sérstaklega kemur svo enn önnur mynd í ljós. Sé litið til breytinga á launum félagsmanna BHM hjá ríkinu hækka laun þeirra um rúmt 1% frá september 2008 til september 2009 og heildarlaun lækka um 2,3%. Þessar breytingar eru mismunandi milli bæði stéttarfélaga og einstakra opinberra launagreiðenda. Einstaka hópar hafa lækkað verulega í heildarlaunum á þessu tímabili, jafnvel um og yfir 10%. Aðrir hafa lækkað minna og stöku hópar hafa hækkað um prósentustig eða svo. Kjarasamningar sem gerðir voru á árinu 2008 byggðu þó á ætlaðri hækkun sem nema átti 3-6%. Innan Bandalags háskólamanna fyrirfinnst enginn sem ekki hefur þurft að sjá á bak meirihluta þeirrar hækkunar í niðurskurði á öðrum þáttum launa sinna en dagvinnulaunum.

 

Á sama tíma hafa skattar hækkað umtalsvert og verðbólgan verið tæp 11%.

 

Breytingar á launum félagsmanna BHM hjá því opinbera hafa um alllangt skeið verið nokkuð sambærilegar við þær breytingar sem verða hjá sérfræðingum á almennum markaði. Og launamunurinn því haldist sá sami. Að starfa hjá því opinbera gefur 70 – 75 % af því sem greitt er á almennum markaði. Það hefur ekkert breyst.


Fréttir