Kjaramál háskólamenntaðra

Eftir Pétur Berg Matthíasson

9.6.2010

Kjararáðstefna BHM (Bandalags háskólamanna) var haldin 12. maí síðastliðinn. Fjölmörg mál voru tekin fyrir á ráðstefnunni og rædd í þaula en þar bar hæst mál eins og kaupmáttarþróun, verðgildi háskólamenntunar, framgöngu í kjarasamningum og vinnutímaumhverfi. BHM kom að gerð stöðugleikasáttmálans á sínum tíma, sem margir kalla nú óstöðugleikasáttmála eða jafnvel stöðnunarsáttmála. BHM taldi aðildina mikilvæga, þó svo að innihald sáttmálans væri ekki sniðið að hagsmunum háskólamenntaðra á vinnumarkaði. Litið var svo á að almennur stöðugleiki í efnahagsumhverfinu væri mikilvægari en að tryggja sérhagsmuni einstakra hópa.

Gjaldfelling háskólamenntunar

Áhyggjur háskólamenntaðra af raunverulegu ástandi á vinnumarkaðnum komu bersýnilega fram á kjararáðstefnunni. Fórn háskólamenntaðra með þátttöku í stöðugleikasáttmálanum felst í því að sætta sig við að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur lækkað um að minnsta kosti þriðjung á síðastliðnum tveimur árum. Háskólafólk er margt í þeim miðlungstekjuhópi sem hefur þurft að taka á sig mestar skattahækkanir, hefur orðið illa úti með þróun lánamála og sætt launalækkunum á sama tíma, auk þess að vera utan þeirra tekjumarka sem stjórnvöld miða við í aðgerðum sínum til aðstoðar. Þar við bætist að ekkert tillit er tekið til námslána þegar kemur að tillögum um niðurfærslu lána eða mildun afborgana.

Við þetta verður ekki lengur unað enda er staða margra félagsmanna orðin erfið. Vinnuálag hefur aukist og nálgast hættumörk í ýmsum geirum. Fjölmörg dæmi eru um að starfsfólk fái ekki greitt að fullu fyrir sína vinnu, allt í þágu „stöðugleikans“. Ráðamenn hafa hingað til getað reitt sig á áhyggjur og ótta margra félagsmanna BHM við að missa vinnuna í því ástandi sem nú er. Fyrir vikið eru margar stéttir nú útkeyrðar. Ekki verður lengur setið undir „tilboðum“ stjórnvalda um frekari gjaldfellingu háskólamenntunar sem er ekkert annað en atlaga að framtíðarkjörum háskólamanna í landinu.

Stefna stjórnvalda virðist vera að moka fólki í háskólana, á þeim forsendum að verið sé að finna tímabundinn geymslustað fyrir þetta fólk með eins litlum tilkostnaði og hægt er. Á meðan gerist lítið á hinum almenna vinnumarkaði og nýráðningar hjá hinu opinbera eru mjög takmarkaðar. Það skýtur skökku við að á sama tíma og stjórnvöld predika mikilvægi menntunar þá séu þau að gjaldfella verðgildi háskólamenntunar. Hætt er við að unga fólkið í dag muni ekki starfa hér á landi heldur flytjast út eftir háskólanám þar sem atvinnutækifæri eru fleiri og launin betri. Áhugaleysi og viljaleysi stjórnvalda til að ræða þessi mál valda háskólamenntuðum vonbrigðum.

Afleiðingar aðgerða stjórnvalda

Á meðan stjórnvöld setja fram stefnu um aukið samstarf, betri þjónustu við borgarana og betri nýtingu mannauðs þá er þungt hljóð í háskólamenntuðu fólki sem að stórum hluta veitir þessa þjónustu. Langtímaáætlanir stjórnvalda um niðurskurð í opinberum rekstri breytast sífellt en fjárlög 2010 gerðu ráð fyrir um 43 milljarða kr. samdrætti í útgjöldum. Ég held að það sé mat margra að menn þurfi að tala af hreinskilni um þessi mál og hætta að tala um að efla og bæta þjónustu því það verður ekki gert með viðlíka niðurskurði á næstu árum. Staðan í þjóðfélaginu er þannig að þjónusta hins opinbera muni skerðast.

Uppsagnir eða frekari gjaldfelling háskólamenntunar mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Nægir að nefna auknar greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði, skerta þjónustu við almenning og önnur vandamál sem fylgja þegar þessi meðaltekjuhópur stendur ekki lengur undir lánum sínum. Skilaboðin eru í raun þau að vinnumarkaðurinn, hvort heldur hinn almenni eða opinberi, muni ekki verðlauna háskólamenntaða einstaklinga með betri störfum eða hærri launum. Er þetta framtíðin sem við viljum?

Sóknarsáttmáli

Það skortir ekki vilja til samstarfs við ríkið um næstu skref í kjaramálum háskólamanna. Núverandi stöðugleikasáttmáli er hins vegar byggður á gamalli hugmyndafræði sem virkaði hér áður fyrr en virkar ekki í dag. Ef hrunið hefur kennt okkur eitthvað þá er það að líta gagnrýnið á það hvernig hlutir voru framkvæmdir. Kjarasamningar og sáttmálar á vinnumarkaði eru þar engin undantekning. Leita þarf nýrra leiða og hluti af því er að kanna hvernig við vinnum upp 30% kjaraskerðingu. Markmið félagsmanna eru ekki óraunhæfar launahækkanir sem stuttu síðar verða étnar upp af verðbólgunni. Markmiðið er að auka á ný kaupmátt en það þarf að gera með aðgerðum en ekki aðgerðaleysi.

Höfundur er í stjórn Félags íslenskra félagsvísindamanna.


Fréttir