Fullt var út úr dyrum á málþingi BHM, BSRB og KÍ um samspil lífeyris og almannatrygginga

23.1.2012

 

Málþing BHM, BSRB og KÍ fór fram á Grand hótel 19. janúar sl. fyrir fullum sal en alls mættu rúmlega 400 manns til að hlýða á þau erindi sem þar voru flutt.

Málþing um samspil lífeyrir og alm.tryggingar 19.jan 2012

 

Eiríkur Jónsson, fyrrverandi formaður Kennarasambandsins tók fyrstur til máls og flutti stutt inngangserindi fyrir hönd bandalaganna þriggja. Fór hann þar yfir sögulegan aðdraganda lífeyriskerfisins, mikilvægi þess og sagði frá því sem BHM, BSRB og KÍ  hafa lengi haft áhuga því að fá útreiknað, þ.e. Hvað myndi það kosta Tryggingastofnun ef lífeyriskjör opinberra starfsmanna yrðu færð niður til jafns við kjör almennu sjóðanna? Hvað myndi það kosta Tryggingastofnun ef þeir opinberu lífeyrisþegar sem nú dvelja á elli- eða hjúkrunarheimilum og greiða dvöl sína sjálfir að fullu eða verulegu leyti hættu því? Því næst tók fundarstjóri, Elín Björg Jónsdóttir til máls og kynnti Benedikt Jóhannesson til leiks.

Benedikt sagði frá niðurstöðum skýrslu sem hann vann um samspil lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum, almannatrygginga og skatta. Af skýrslu Benedikts má sjá að tekjujafnandi áhrif greiðslna frá Tryggingastofnun og skattgreiðslna valda því að munur á ráðstöfunartekjum er mun minni en munur á lífeyrisréttindum gefur til kynna. Lífeyrisgreiðslur frá almennum lífeyrissjóði, sem eru um 23% lægri en greiðslur frá A-deild LSR, gefa ráðstöfunartekjur sem eru aðeins um 5%-10% minni hjá þeim sem er í almenna lífeyrissjóðnum. Jafnframt má líta svo á að á móti skuldbindingu vegna lífeyrissjóða ríkisins komi bæði sparnaður vegna almannatrygginga og meiri skatttekjur en ella. Glærur með erindi Benedikts má nálgast neðst á síðunni ásamt skýrslunni.

Sigriður Lilly Baldursdóttir

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, flutti erindi undir heitinu „Lífeyristrygging - Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða". Þar fjallaði hún sérstaklega um lágmarksframfærslutryggingu Tryggingastofnunar, tekjutengingar og þróun lífeyristrygginar almanantrygginga samanborið við þróun launa og neysluverðs undanfarna áratugi. Glærur með fyrirlestir Sigríðar má sömuleiðis finna neðst á síðunni.

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra tók næst til máls og fjallaði almennt um lífeyrismál. Ráðherra fjallaði fyrst og fremst um áður þekktar staðreyndir og fór yfir áherslur starfshóps sem undanfarið hefur unnið að hugsanlegum breytingum á lífeyriskerfinu. Ráðherra var einnig tíðrætt um mikilvægi málaflokksins og nauðsyn þess að vinna málið á sáttagrundvelli og af yfirvegun þar sem um miklar fjárhæðir væri að ræða sem vörðuðu framtíð landsmanna allra og ríkissjóðs. Ekkert var gefið uppi um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við vanda opinberu lífeyrissjóðanna en það undirstrikar enn og aftur að eitthvað þyrfti til bragðs að taka.

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM, flutti samantekt og fór stuttlega yfir það sem á undan hafði verið rætt. Hún fór einnig yfir sameiginlega sýn BHM, BSRB og KÍ á lífeyrismálin. Að því loknu sleit Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, málþinginu.