Kynning á kjarakönnun BHM

26.8.2013

  • DSCN1386-002

Kjarakönnun BHM er upphafið á langtímaverkefni með árlegri könnun um kjör og viðhorf félaga í BHM. Markmiðið með því er að byggja upp gagnagrunn sem gagnast aðildarfélögum og félagsmönnum í kjarabaráttunni. Þessi fyrsta skýrsla er mikilvægt innlegg í komandi samningalotu, en hvert hinna 24 félaga sem tóku þátt í könnuninni fær eigin skýrslu inn í sitt starf.

Svörun í könnuninni var um 60%. 24 aðildarfélög tóku þátt, en þau eru mjög breytileg að samsetningu t.d. hvað varðar kyn, vinnustað(i) og aldur.

Laun hækka með meiri menntun, sem er ánægjulegt.

Áberandi launamunur er milli kynja, hjá öllum vinnuveitendum. Tölur um launamun kynja eru settar fram á þann hátt að þær gefi til kynna hversu mikið laun kvenna þurfi að hækka til að standast á við laun karla.

Tvær breytur, sem ekki geta með réttu talist málefnaleg skýring á launamun karla og kvenna, sýndu engu að síður fylgnisamband. Annars vegar vinnuveitandi, þ.e. hvar fólk vinnur, og hins vegar fjöldi kvenna í aðildarfélagi BHM. Línulegt samband er á milli fjölda kvenna í aðildarfélagi og launa, því fleiri sem konurnar eru því lægri eru launin.

Heildarlaunagreiðslur félagsfólks á árinu 2012 voru að meðaltali 6.391 þús. kr. Munur á hæsta og lægsta félagi var tvöfaldur (4.867 lægst, iðjuþjálfar og 9.341 hæst, prófessorar).

Félagsmenn aðildarfélaga BHM starfa á öllum sviðum vinnumarkaðar, flestir samkvæmt kjarasamningum en einnig sjálfstætt. BHM og aðildarfélög semja um kjör félagsmanna við:

  • Ríki
  • Samband íslenskra sveitarfélaga
  • Reykjavíkurborg
  • Samtök atvinnulífsins
  • Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu
  • Einstök fyrirtæki á almennum vinnumarkaði
  • Sjálfseignarstofnanir

Í stefnu BHM kristallast sú sýn að blómlegt atvinnulíf sem horfir til framtíðar er forsenda fyrir bættum kjörum og réttindum á vinnumarkaði. Hagsæld á vinnumarkaði byggir á sterku menntastigi og góðri nýtingu þekkingar á öllum sviðum.

Hér má nálgast:
Kjarakönnun BHM 2013, heildarskýrsla.
Kynningu Maskínu á niðurstöðum.


Fréttir