Að útskýra burt fjall

Grein birst í Fréttablaðinu 30. ágúst 2013

30.8.2013

  • Guðlaug Kristjánsdóttir
    _MG_6199

Esjan er fjall, um það eru flestir sammála. Þó mætti með einbeittum vilja útskýra hana burt og kalla missýn, með því að telja mosann sér, kjarr, möl, og sprungur þar til ekkert stendur eftir. Umræða um launamun kynja fær oft þennan blæ. Ævitekjur karla og kvenna eru misstór fjöll, sem þó tíðkast að útskýra burt og viðurkenna bara bunguna sem eftir stendur.

Nýútkomin kjarakönnun BHM sýnir skýrt að störf karla og kvenna eru misjafnt metin á Íslandi í dag. Ýmsar skýringar eru tíndar til, en þó mynda tölurnar útlínur á mjög svo raunverulegu fjalli.

Þess má geta að lífeyrisgreiðslur í ellinni miðast ekki við málefnalega útskýrðan launamun, þær eru einfaldlega afurð af ævitekjum. Launamunurinn eltir okkur þannig út ævina, hvort sem hann er útskýrður burt eður ei.

Gleymdist að senda karlinn heim?

Vinnumarkaðurinn var veröld karlsins og enn í dag er hugsað í karlkyni þegar rætt er um að „hreyfa hjól atvinnulífsins“.

Konur hafa alltaf unnið, þótt þeirra iðja hafi ekki alltaf verið kölluð vinna, nema þá með forskeytinu „heima-“. Auðvitað hafa bæði kynin unnið alla tíð, þótt verðmat á störfunum sé ólíkt.

Í dag vinna íslenskar konur meira utan heimilis en kynsystur í flestum samanburðarlöndum. Samfélagið er þó enn að laga sig að þeim veruleika. Konur fóru út að vinna en samfélagið gleymdi lengst af að senda mennina heim á móti.

Fórnarlambinu kennt um

Strax og rætt er um launamun dúkkar upp kunnugleg fullyrðing: konur eru bara ekki nógu duglegar að heimta laun. Getur endalaust verið rétt að kenna láglaunafólki um eigin stöðu? Þarf ekki sá sem kröfuna fær að breyta sínu viðmóti? Konur berjast sannarlega fyrir launahækkunum, það sem á vantar er að kröfunum sé mætt.

Einnig þarf að horfast í augu við að kjörin endurspegla verðmat sem ekki er alltaf viðkunnanlegt. Það er t.d. mjög skýrt að uppeldi, menningarstörf og heilbrigðisþjónusta eru metin lágt til fjár. Að steypa veg er mun verðmætari framkvæmd en að hjúkra barni, sé einungis horft á verðmiðann.

Rétt er að benda á að ef störf eru kerfisbundið vanmetin í kjarasamningum eykst þrýstingur á aukasporslur, falin laun. Slíkt hefur hingað til fremur ratað til karla en kvenna. Of lágir kauptaxtar geta þannig aukið launamun kynja.

Er þekking metravara?

Venjur á vinnumarkaði bera keim af verklegum störfum. Kaffihlé í kjarasamningum eiga rót sína þar fremur en í eðli þeirra starfa sem verið er að semja um í dag.

Hærri laun fyrir mannaforráð eru af svipuðum toga, aðskilnaður starfsmanns á plani frá verkstjóranum og laun eftir fjölda unninna stunda endurspegla líkamleg störf.

Háskólamenn vinna með höfðinu, við að beita þekkingu. Spyrja má hvort alltaf sé réttlætanlegt að sá sem er staðsettur í tilteknu húsi (með þar til gerðri stimpilklukku) í lengri tíma en næsti maður, fái af þeim sökum hærri laun. Hvað ef snilldarhugmyndir fæðast heima í sturtunni eða á rauðu ljósi í bílnum? Er framleiðsla þekkingar sem kemur vinnustað til góða ókeypis ef henni er „landað fram hjá stimpilklukku“?

Á fræðimaður sem býr til vinnuskýrslur skýlaust rétt á hærri launum en hinn sem bara vinnur við sitt fag og gerir það vel? Er yfir höfuð hægt að vera starfsmaður á plani ef söluvaran er þekking?

Við hljótum að mega fara að endurskoða þetta.

Dropinn holar stein

Rétt eins og tannburstun alla daga, allt árið, er besta forvörn gegn tannskemmdum er nauðsynlegt að halda á lofti jöfnum rétti drengja og stúlkna, karla og kvenna, alla daga, ársins hring.

Við getum ekki slakað á þessum taumi, nema við séum bara sátt við að karlar komist á topp Esjunnar með launin sín en konurnar bara að Steini.

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM


Fréttir