Óheimilt að framselja alfarið ákvörðunarvald um ráðningar

Erna Guðmundsdóttir lögfræðingur BHM, reifar nýtt álit umboðsmanns Alþingis

4.10.2013

  • _MG_6361

Þann 25. september sl. kom niðurstaða í máli umboðsmanns Alþingis nr. 7100/2012 vegna ráðningar í starf skólastjóra í grunnskóla. 

Í stuttu máli komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að stjórnvaldi sé óheimilt að setja ákvörðunarvald um ráðningar alfarið í hendur utanaðkomandi ráðningaraðila.

Málavextir eru þeir að umsækjandi (A) um starf skólastjóra leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun bæjarstjórnar sveitarfélagsins X um ráðningu í starf skólastjóra í grunnskóla en A var á meðal umsækjenda um starfið. Við undirbúning ráðningarinnar hafði sveitarfélagið leitað til utanaðkomandi ráðningarhóps sem hafði skilað skólanefnd sveitarfélagsins tillögum sínum um ráðningu skólastjóra, þar sem búið var að raða umsækjendum í hæfnisröð. A var sjöundi í röðinni en sex efstu umsækjendurnir voru boðaðir í annað viðtal til ráðningarhópsins. Þeir sem voru neðar á lista komu ekki til greina í starfið eftir það.

Umboðsmaður tók fram að í máli þessu hefði bæjarstjórnin falið ráðningarhópi, sem skipaður var utanaðkomandi aðilum, að leggja mat á umsóknir og annast aðra þætti í ráðningarferlinu. Það hefði ekki verið í samræmi við lögbundið hlutverk bæjarstjórnarinnar og almennar reglur stjórnsýsluréttarins að ákvörðunarvald um hvaða umsækjendur yrðu boðaðir í viðtal væri alfarið í höndum ráðningarhópsins. Málsmeðferð sveitarfélagsins hefði verið haldin verulegum annmarka að þessu leyti.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til bæjarstjórnar sveitarfélagsins X að leita leiða til að rétta hlut A og gæta þess framvegis að hafa þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu til hliðsjónar í störfum sínum.  Álit Umboðsmanns í heild sinni.Fréttir