Hugleiðingar á 55 ára afmæli BHM

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður BHM

23.10.2013

  • Guðlaug Kristjánsdóttir
    _MG_6199

Í dag eru 55 ár frá því að frumkvöðlar úr 11 félögum háskólamenntaðra gengust fyrir stofnun heildarsamtaka undir nafninu Bandalag háskólamanna. Fyrir þeim vakti að efla samstöðu meðal háskólamenntaðra og styrkja þannig rödd þeirra í innlendri samfélagsumræðu. Meðal verkefna nýs bandalags var að knýja fram samningsrétt um kaup og kjör, bæta aðstöðu til vísindalegra starfa og auka skilning landsmanna á mikilvægi háskólamenntunar í atvinnulífinu.

55 ár eru út af fyrir sig ekki hár aldur, en þessi ár sem tilvist BHM spannar hafa þó borið með sér miklar breytingar. Menntun er í dag mun algengari og starfsvettvangur fólks með háskólamenntun hefur stækkað til muna. Grunnstefin í starfi BHM eru þó enn þau sömu. Samstaða meðal háskólamenntaðra er jafnmikilvæg nú og hún var við stofnun bandalagsins og ennþá er nauðsynlegt að minna á mikilvægi menntunar í uppbyggingu atvinnulífsins í landinu.

Sú sem þetta ritar tók við formennsku í BHM stuttu fyrir 50 ára afmæli þess árið 2008, vorið áður en efnahagur Íslands hrundi með braki og brestum. Á þeim tímapunkti þótti nýjum formanni býsna hart að enn skyldi þurfa að minna á það með virkum hætti að menntun væri mikilvæg og berjast fyrir því að menntun væri metin að verðleikum til launa. 

Vart þarf að orðlengja að frá hruni hefur baráttan frekar harðnað en hitt, með aðhaldi og niðurskurði samfara auknum álögum á millitekjufólk. Fylgifiskur þeirrar stefnu sem ríkt hefur í kjarasamningum frá hruni, að hækka aðeins lægstu laun, hefur verið verðfelling starfa háskólamenntaðra. Sú þróun má ekki festa sig í sessi, enda er háskólamenntað vinnuafl hreyfanlegt og vinnumarkaður þess stærri en sem nemur íslenskri landhelgi. Atgervisflótti úr landinu er öllum til skaða.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014 boðar afturför í uppbyggingu vinnumarkaðar fyrir háskólamenntaða á Íslandi. Þrengt er að rannsóknum, vísindastörfum og nýsköpun, sé horft til þeirra áherslna sem ráðherra birtir í tillögum sínum. Slíkt helst illa í hendur við uppbyggingu verðmætra þekkingarstarfa til að færa íslenskan vinnumarkað áfram í átt til framtíðar.

Tölur frá Vinnumálastofnun benda um þessar mundir til þess að atvinnuleysi háskólamenntaðra gangi hægar til baka en hjá þeim sem minni menntun hafa. Ísland má virkilega hafa áhyggjur það ástand verður viðvarandi, enda mikil sóun ef uppbygging þekkingar skilar sér ekki í virkni á vinnumarkaði.

55 ára afmæli BHM er fagnaðarefni, þrátt fyrir alvarlegan undirtón þessara hugleiðinga. Megi afmælisbarnið lifa bæði vel og lengi og félögunum sem að því standa auðnast að uppfylla tilgang þess, enn höfum við verk að vinna.

23. október 2013


Fréttir