Chat with us, powered by LiveChat

Yfirlýsing frá starfsfólki Barnaverndarstofu

3.10.2014

Vegna frétta um breytingar á barnaverndarkerfinu telur starfsfólk Barnaverndarstofu rétt að leiðrétta rangfærslur sem má finna í ummælum félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu barnaverndarmála hér á landi. Þær benda til þess að í undirbúningi séu ákvarðanir um breytingar á barnaverndarkerfinu á röngum forsendum. Þannig er haft eftir ráðherra í fjölmiðlum „að engin viðmið séu til um hvað sé góð barnavernd“. Enn fremur „að koma verði upp sérstökum gæðastöðlum“ hliðstætt því sem þekkist í heilbrigðisþjónustu. Hið rétta er að á öllum málasviðum barnaverndar liggja fyrir handbækur (t.d. fyrir barnaverndarstarfsmenn í héraði og starfsfólk meðferðarheimila), leiðbeiningar, reglur og gæðastaðlar. Starfsmenn barnaverndarnefnda sækja leiðbeiningar og ráðgjöf til stofunnar um viðeigandi úrræði fyrir börn og fjölskyldur í vanda. Þá gegnir stofan mikilvægu hlutverki við að leiðbeina og hafa eftirlit með að reglum um málsmeðferð samkvæmt barnaverndarlögum sé framfylgt. Því fylgir eðli málsins samkvæmt gæðaeftirlit með framkvæmd málsmeðferðarreglna barnaverndarlaga. Á sumum sviðum, t.d. kynferðisbrota gegn börnum, hefur Ísland m.a.s. orðið fyrirmynd annarra Evrópuþjóða.

Barnaverndarstofa annast einnig margvíslega fræðslu og þjálfun til að tryggja trausta framkvæmd hjá starfsmönnum barnaverndarnefnda og meðferðarheimila og samstarfsaðilum. Stofan hefur jafnframt þróað meðferðarstarf á stofnunum og í nærumhverfi fyrir fjölskyldur og börn sem glíma við alvarlegan hegðunar- eða vímuefnavanda og innleitt alþjóðlega viðurkenndar og gagnreyndar aðferðir á því sviði. Starfsfólk Barnaverndarstofu hefur alltaf lagt sig fram um að afla sér bestu þekkingar innanlands sem utan. Um þetta allt má lesa í ítarlegum ársskýrslum og á vefsíðu Barnaverndarstofu.

Ummæli um staðarval hinnar nýju stjórnsýslustofnunar valda starfsfólki jafnframt áhyggjum. Þau benda til þess að önnur sjónarmið séu talin mikilvægari en velferð barna. Nýverið lögfesti Alþingi barnasamning Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um þá meginreglu að það sem barni er fyrir bestu skuli vera í fyrirrúmi þegar stjórnvöld taka ákvarðanir er varða börn. Á svæðinu sem afmarkast af klukkutíma akstri út frá Reykjavík koma um 85% allra tilkynninga í barnavernd og um 81% barnaverndarmála. Ef einungis er miðað við höfuðborgarsvæðið er um að ræða 69% tilkynninga og 62% barnaverndarmála. Samskipti Barnaverndarstofu eru því eðli málsins samkvæmt mest við barnaverndarnefndir sem starfa á þessu svæði, sem og við sérhæfðar þjónustustofnanir bæði á vegum stofunnar og utan hennar, t.d. Barna- og unglingageðdeild Landspítala og Greiningarstöð ríkisins. Í náinni samvinnu og nágrenni þessara aðila má betur viðhalda og þróa sérþekkingu í þjónustu við börn, fjölskyldur og barnaverndarnefndir um landið allt. Það er mikilvægt markmið að geta veitt öllum börnum í landinu góða þjónustu. En í ljósi ofangreinds verður að líta svo á að ef áformað er að flytja stjórnsýslu jafnviðkvæms málaflokks burt frá því landsvæði þar sem helst reynir á hana og tíðustu samskiptin eiga sér stað, þá gangi það í berhögg við málefnaleg sjónarmið, markmið barnaverndarlaga og hagsmuni landsmanna allra.

Starfsfólk Barnaverndarstofu styður endurskoðun á grundvallarstoðum barnaverndarkerfisins og vill leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu. Starfsfólk hefur nánast eingöngu fengið upplýsingar um málið úr fjölmiðlum og undrar sig því á að ráðherra hafi hingað til ekki séð ástæðu til að leita liðsinnis starfsfólksins, sem eðli máls samkvæmt býr yfir sérfræðiþekkingu á málaflokknum.

 Samþykkt einróma á fjölmennum fundi starfsmanna Barnaverndarstofu 3. október 2014.


Fréttir