Frambjóðendur til formanns BHM

10.3.2021

  • frambjodendur2021_formadurBHM

Nýr formaður BHM verður kjörinn í aðdraganda næsta aðalfundar bandalagsins, sem haldinn verður 27. maí nk., en núverandi formaður, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur tilkynnt að hún muni ekki bjóða sig fram að nýju. Tvö eru í framboði: Friðrik Jónsson, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) og Maríanna H. Helgadóttir, formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN). 

Nýr formaður bandalagsins verður kjörinn í rafrænni atkvæðagreiðslu meðal fulltrúa sem aðildarfélögin munu tilnefna til setu á næsta aðalfundi bandalagsins, sbr. grein 5.0.1 í lögum þess. Atkvæðagreiðslan hefst tveimur vikum fyrir fundinn og lýkur tveimur dögum áður en hann verður settur.

Framboðsnefnd BHM auglýsti í lok janúar eftir frambjóðendum í trúnaðarstöður innan bandalagsins. Til að geta boðið sig fram í stjórn BHM, þ.m.t. til formanns, þarf félagsmaður að hafa hlotið skrifleg meðmæli síns aðildarfélags. Félögin fengu frest til 25. febrúar til að skila tilnefningum til framboðsnefndar, þ.e. fullgildum framboðum til stjórnar. Þegar fresturinn rann út höfðu tvö framboð til formanns BHM borist. 

Hér að neðan kynna frambjóðendurnir sig sjálfir, með eigin orðum, í stafrófsröð.

Friðrik Jónsson, 53, FHSS

Fridrik_Jonsson_MyndFriðrik er formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins og hefur víðtæka reynslu af félagsmála- og trúnaðarstörfum. Framboð hans til formennsku í BHM hefur það markmið að efla bandalagið; styrkja innviði, treysta varnir og nýta sóknarfæri. Í brennidepli þarf ávallt að vera að háskólamenntun sé metin að verðleikum í launum og aðbúnaði ásamt því að hugviti og þekkingu séu rudd braut til öflugrar verðmætasköpunar í samfélaginu.

Friðrik hefur starfað í íslensku utanríkisþjónustunni í aldarfjórðung. Hann er forstöðumaður GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Undir merkjum GRÓ starfa fjórir skólar sem styðja við eflingu getu þróunarríkja á sviðum jafnréttis, jarðhita, landgræðslu og sjávarútvegs. Friðrik er einnig fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins hvar Ísland gegnir nú formennsku.

Friðrik hóf feril sinn í utanríkisþjónustunni í byrjun ársins 1996 og hefur m.a. starfað við sendiráð Íslands í Bandaríkjunum og Kaupmannahöfn. Friðrik var um tíma fulltrúi Íslands í hermálanefnd NATO og m.a. fyrsti borgaralegi fulltrúinn sem kjörinn var forseti nefndarinnar. Hann gegndi einnig störfum sem ráðgjafi aðalfulltrúa Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í stjórn Alþjóðabankans í Washington DC. Frá sumrinu 2009 starfaði Friðrik í 18 mánuði í Afganistan, fyrst hjá alþjóðaliðinu og síðar Sameinuðu þjóðunum.

Friðrik er fæddur árið 1967. Hann er með MA og BA gráður í alþjóðasamskiptum, auk MBA gráðu í alþjóðaviðskiptum. Hann er kvæntur Elínborgu Þóru Þorbergsdóttur og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn. Að auki halda þau hjónin heimili með tveimur hundum sínum sem njóta góðs af áhuga Friðriks á gönguferðum auk söngs og gítarglamurs, sem gleður þá minna. 

Maríanna H. Helgadóttir, 53 ára, FÍN

FB_IMG_1461696754864

Maríanna er formaður og framkvæmdastjóri Félags íslenskra náttúrufræðinga og hefur víðtæka samfellda reynslu frá árinu 2006 af kjarasamningsviðræðum bæði á opinbera og almenna markaðinum þar sem hún hefur annað hvort leitt viðræður eða setið í viðræðunefnd. Henni hefur verið treyst fyrir fjölbreyttum verkefnum á vettvangi BHM og aðildarfélaganna. Hún er aðalmaður í Kjara- og réttindanefnd, lagabreytinganefnd og Sjúkrasjóði BHM. Jafnframt situr hún í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og hefur áður setið í stjórn Vinnueftirlitsins og verið varamaður í stjórn Vinnumálastofnunar. Þá hefur hún setið í stjórn BHM, Verkfallssjóði, Fræðslunefnd og nefndum sem mótuðu tillögur að stefnu BHM.

Maríanna hóf störf hjá FÍN árið 2006 og þá sem framkvæmdastjóri félagsins og varð formaður félagsins 2016. Hún lauk námi í BSc í búvísindum, frá LBHÍ, diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá HÍ, hefur lokið einu ári í lögfræði og grunnfögum í viðskiptafræði við HÍ.

Maríanna telur sig geta verið sterkan málsvara BHM. Hún hefur sterka réttlætiskennd og telur sig geta leitt starf bandalagsins farsællega í góðu samstarfi við aðildarfélögin. BHM þarf að hafa skýra sýn á málefnum er varðar háskólamenntaða og brýnt að halda áfram að móta stefnu og setja mál á dagskrá í sóknar- og aðgerðaráætlun bandalagsins. Halda þarf á lofti sérstöðu háskólamenntaðra, ávinning samfélagsins af því að hafa aðgang að vel menntuðum sérfræðingum, að „Menntun sé metin til launa“.

Maríanna telur að vinnumarkaður framtíðarinnar hafi þörf fyrir sterkan málsvara háskólamenntaðra og vill efla samstarf milli aðildarfélaga og virkja enn frekar reynslumikinn mannauðinn sem er til staðar. Sameinuð erum við sterkust og allir vegir færir.


Fréttir