Chat with us, powered by LiveChat

Skiptir aldurssamsetning á vinnustað máli?

Morgunverðarfundir á vegum 50+

12.10.2006

Á fundaröð þessarri er vísað til þriggja grunnspurninga, sem eru; Kallar framtíðin á breyttar áherslur? Skiptir aldurssamsetning á vinnustað máli? Og, er æskudýrkun á þínum vinnustað?

Árið 2005 skipaði félagsmálaráðherra, sjö manna verkefnisstjórn sem ætlað er að stýra fimm ára verkefni sem hefur það meginmarkmið að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Eitt af því sem verkefninu er ætlað, er að styrkja stöðu þeirra sem eru 50 ára og eldri með því að skapa jákvæða umræðu um miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.  Markmiðið er m.a. að bæta ímynd þeirra með því að vekja athygli á kostum þeirra sem starfsmanna og móta farveg fyrir viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu.

Seinni tveir morgunverðarfundirnir verða svo 9. nóvember og 7. desember.

Dagskrá fundanna þriggja verður sem hér segir:

17. október kl. 8:30 – 10:00

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra ávarpar fundargesti.

Sigurður Guðmundsson skipulagsfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu fjallar um aldursskiptingu í atvinnugreinum.  Frammi fyrir hvaða veruleika er staðið í atvinnulífinu?  Hver er þróunin?

Steinn Logi Björnsson  forstjóri Húsasmiðjunnar og Rakel Ýr Guðmundsdóttir starfsmannastjóri SPRON fjalla um stefnu fyrirtækja með tilliti til aldursdreifingar á vinnustað.  Gilda sömu sjónarmið í fjármálafyrirtækjum og verslun svo dæmi sé tekið?  Bjóða fyrirtæki eldra starfsfólki að minnka starfshlutfall eða flytjast úr ábyrgðarstöðu í aðra síður ábyrgðarfulla?  Fá eldri starfsmenn sömu tækifæri og yngri varðandi endur- og símenntun?

9. nóvember kl. 8:30 – 10:00

Hugrún Jóhannesdóttir forstöðumaður þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu fjallar um hlutverk vinnumiðlana og þátt þeirra í því að hafa áhrif á viðhorf atvinnurekenda til þessa aldurshóps.  Hvað geta þær gert til þess að auka möguleika aldurshópsins á að fá vinnu.  Þá verður einnig verður komið inná ráðgjöf og miðlun starfa.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir  stjórnarformaður Rannsóknarstofu í vinnuvernd og dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands fjallar um einstaklinginn á vinnustað, vellíðan hans og hvort aldurssamsetning hópsins geti haft þar áhrif á t.d. út frá einelti og öðru slíku.  Hvernig geta einstaklingar tekist á við atvinnuleysi og hvað geta þeir gert til að auka möguleika sína á vinnumarkaði?

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Gunnar Páll Pálsson formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur fjalla um þátt félagasamtaka, stéttarfélaga og félög atvinnurekenda.  Hvað geta þessir aðilar gert til að styrkja stöðu hópsins á vinnumarkaði? 

7. desember kl. 8:30 – 10:00

Jón Torfi Jónasson prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, fjallar um símenntun innan fyrirtækja.  Eru eldri starfsmenn hvattir til þátttöku í símenntun jafnt og þeir sem yngri eru?  Hvernig skynja fyrirtækin þrýsting á þátttöku?  Eru þeir eldri tregari til þátttöku en þeir yngri?  Skiptir starfsmannastefna máli varðandi þátttöku?  Hvaða skýringar eru á minni þátttöku eldra fólks í endurmenntun?

Soffía Gísladóttir framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar og Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins fjalla um símenntunaraðila og samspil framboðs og eftirspurnar.  Hvernig verður framboðið til og eftir hverju fara símenntunaraðilar þegar námsframboð er ákvarðað?  Tengist raunfærnimat á einhvern hátt stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði? 
Fréttir