Bandalag háskólamanna styður kröfur ASÍ

14.12.2007

Bandalag háskólamanna styður og tekur undir kröfu ASÍ um að ILO samþykkt nr. 158 sem m.a. varðar rökstuddar uppsagnir öðlist gildi hérlendis. Með því er ekki verið að koma í veg fyrir að atvinnurekendur geti sagt starfsmönnum upp heldur er verið að setja fram þá sjálfsögðu kröfu að uppsagnir séu skriflegar og þar komi fram ástæða uppsagnar. Bandalagið tekur einnig undir kröfu ASÍ þess efnis að í kjarasamningum verði ákvæði sem heimili starfsmönnum upplýsingagjöf um eigin laun og önnur starfskjör. Launaleynd vinnur gegn markmiðum jafnréttislaga og stuðlar að því að viðhalda kynbundnum launamun. Í áherslum ASÍ gagnvart atvinnurekendum er fjallað um tilkynningar um veikindi og er tilefnið það að fjölmörg fyrirtæki og stofnanir gera þá kröfu til starfsmanna að þeir tilkynni veikindi til sjálfstæðra verktaka sem sinna heilbrigðisþjónustu í viðkomandi fyrirtækjum. Verktakarnir óska gjarnan eftir upplýsingum um hvað hrjái starfsmanninn en slíkar upplýsingar eru viðkvæmar persónuupplýsingar sem starfmanni er ekki skylt að veita. ASÍ telur nauðsynlegt að setja ramma í kjarasamninga sem haldi utan um þessa þróun og tryggi rétt starfsmanna og tekur BHM undir þau sjónarmið.


Fréttir