Slit viðræðna um málefni vaktavinnufólks

12.1.2008

Fulltrúar frá BSRB, BHM, ríki og sveitarfélögum ákváðu í morgun að hætta viðræðum um málefni vaktavinnufólks sem staðið hafa frá haustinu 2005. Í tengslum við síðustu kjarasamninga var undirrituð yfirlýsing þess efnis að aðilar væru „sammála um að fara í gagngera endurskoðun á málefnum vaktavinnustarfsmanna með það að markmiði að bæta vinnufyrirkomulag þeirra og gera vaktavinnu eftirsóknarverðari“. Í yfirlýsingunni var tekið fram að sérstaklega skyldi skoða kjör og lengd vinnutíma enda hafði stytting vinnuvikunnar verið meðal helstu baráttumála vaktavinnustétta í kjarasamningaviðræðunum mánuðina á undan.

„Það var ekki að ástæðulausu sem við fórum í þessa vinnu“ segir Halldóra Friðjónsdóttir, formaður BHM. „Mannekla er viðvarandi vandamál á mörgum stofnunum sem sinna þjónustu allan sólahringinn og auðvitað er það ekki síst vegna þess að launin þykja of lág. Við hjá BHM og BSRB lögðum mikla áherslu á kröfur okkar um minni vikulega vinnuskyldu vaktavinnustétta en því miður voru viðsemjendur okkar ekki tilbúnir til að koma til móts við okkur í því efni. Rökin voru þau að afsláttur af vinnuskyldu myndi auka enn frekar á mönnunarvanda stofnana sem sé nægur fyrir.“

Halldóra segir það vonbrigði að ekki hafi náðst samkomulag því mikil vinna hafi farið í þessar viðræður. Vaktavinnuhópurinn hafi haldið tugi funda og einnig hafi Rannsóknarstofu í vinnuvernd verið falið að gera ítarlega rannsókn á viðhorfum vaktavinnufólks. Krafan um minni vinnuskyldu vaktavinnustétta verður tekin upp í komandi kjarasamningum sem og krafa um verulega hækkun grunnlauna enda skili slík hækkun mestu.


Fréttir