Óboðlegt að ríkið bjóði starfsfólki sínu upp á kjararýrnun

Umsögn BHM um frumvarp til fjárlaga fyrir 2020

9.10.2019

  • althingi_logo

BHM gagnrýnir að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 sé gert ráð fyrir að laun ríkisstarfsmanna hækki um 3% á árinu en almennt verðlag um 3,2%. Í umsögn bandalagsins um fjárlagafrumvarpið, sem sent hefur verið fjárlaganefnd Alþingis, eru alþingismenn hvattir til að skoða sérstaklega launaforsendur frumvarpsins: „Það er með öllu óboðlegt að vinnuveitandinn ríkið bjóði starfsfólki sínu upp á kjararýrnun (sjá verðlagsspá 2020) eða launahækkanir sem halda varla í við verðlagsbreytingar.“

Einnig er í umsögninni minnt á að ríkið á eftir að efna fyrirheit um jöfnun launa milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins sem er hluti samkomulags um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna frá árinu 2016: „Nauðsynlegt er að löggjafinn tryggi fjármagn til þess verks enda ljóst að stíga þarf fyrstu skrefin til jöfnunar launa á milli markaða í yfirstandandi kjaralotu.“

Tryggja þarf jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir menntuðu vinnuafli

BHM fagnar því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að flýta fyrirhuguðum skattalækkunum frá því sem áður var ráðgert. Hins vegar bendir bandalagið á að áhersla ríkisstjórnarinnar á að lækka skatta lágtekjuhópa hlutfallslega mest kalli á ráðstafanir til að bæta stöðu millitekjuhópa, ekki síst þeirra hópa opinberra starfsmanna sem nú eru með lausa kjarasamninga. Þá vekur BHM athygli á því að atvinnuleysi meðal háskólamenntaðs fólks fer vaxandi og brýnt sé að brugðist verði við þeirri óheillaþróun: „Mikilvægt er að stjórnvöld marki sér skýra stefnu í atvinnu- og menntamálum svo tryggja megi jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir menntuðu vinnuafli.“

Hraða þarf lengingu fæðingarorlofs

Í umögninni er áformum um lengingu fæðingarorlofs í skrefum fagnað en bent á að lengingin þurfi að gerast hraðar en að er stefnt. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að einn mánuður bætist við lengd orlofsins frá og með 1. janúar 2020. Þá bendir BHM á að til að ná jafnrétti á vinnumarkaði sé nauðsynlegt að hækka hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi enn frekar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir að mánaðarlegar hámarksgreiðslur verði 600 þús.kr. frá 1. janúar 2020.

Fjallað er um ýmis fleiri atriði í umsögn BHM um fjárlagafrumvarpið, s.s. um fjármögnun háskólastigsins og framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina.

Umsögn BHM um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020


Fréttir