Tæplega 90 orlofskostir í boði í sumar

Orlofsblaðið er komið út

11.2.2020

  • orlofsbladid2

Orlofsblaðið, árlegt kynningar- og upplýsingarit Orlofssjóðs BHM, er komið út en þar eru kynntir þeir orlofskostir sem sjóðfélögum standa til boða á þessu ári. Stjórn sjóðsins ákvað sl. haust að hætta að prenta Orlofsblaðið og gefa það eingöngu út á rafrænu formi. Var sú ákvörðun tekin með hliðsjón af breyttum viðhorfum og áherslum í umhverfismálum. Blaðið verður því sent sjóðfélögum sem pdf-skjal í tölvupósti en ekki borið í hús eins og undanfarin ár.

„Flakkarahúsin“ fleiri en áður

Samtals standa sjóðfélögum 89 orlofskostir til boða næsta sumar, 77 hús eða íbúðir innanlands og 12 erlendis. Sem endranær má búast við því að fjöldi umsókna verði töluvert umfram fjölda orlofskosta og vikna sem til ráðstöfunar eru. Þegar eftispurnin er þannig meiri en framboðið ræður punktainneign miklu um möguleika sjóðfélaga á því að fá úthlutun. Til að auka möguleika sjóðfélaga sem ekki eiga marga punkta hefur stjórn Orlofssjóðs ákveðið að fjölga svokölluðum „flakkarahúsum“ í sumar miðað við undanfarin ár. Punktainneign hefur ekki áhrif á möguleika sjóðfélaga á að fá flakkarahúsi úthlutað heldur gildir þar reglan fyrstur bókar, fyrstur fær

Orlofskostir sem í boði eru næsta sumar eru bæði hús og íbúðir í eigu Orlofssjóðs sem og eignir sem sjóðurinn leigir yfir sumartímann. Samtals á sjóðurinn 57 eignir hér á landi, þar af 33 í Brekkuskógi í Biskupstungum, sem leigðar eru út allt árið. 

Orlofsblaðið 2020 er samtals 28 blaðsíður og er að vanda prýtt ljósmyndum af þeim orlofskostum sem í boði eru og ítarlegum upplýsingum um allan búnað þeirra og þægindi.

Orlofsblaðið 2020