Páli þakkað áratugastarf í þágu BHM

20.5.2016

  • 2009-01-01-00.00.00-50
  • 2009-01-01-00.00.00-61
  • 2009-01-01-00.00.00-53

Páli Halldórssyni, fráfarandi varaformanni og fyrrverandi formanni BHM og Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN), var þakkað áratugastarf í þágu bandalagsins á aðalfundi þess sem haldinn var í gær. Hann hefur ákveðið að draga sig í hlé frá störfum á vettvangi kjara- og hagsmunabaráttu háskólamanna eftir að hafa staðið í eldlínunni í um þrjá áratugi. Páll var fyrst kjörinn í trúnaðarstörf fyrir FÍN árið 1986, var formaður Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna (BHMR) frá 1988 til 1994 og formaður BHM frá 1994 til 1996. Frá árinu 2008 hefur Páll verið varaformaður bandalagsins og gegndi aftur formennsku um skeið á árunum 2014 til 2015 jafnframt því að vera formaður samninganefndar aðildarfélaga þess.

Í tilefni af þessum merku tímamótum færði núverandi formaður BHM, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Páli gjafir og þakkaði honum þrotlaust og óeigingjarnt starf í þágu bandalagsins. Á aðalfundinum viku jafnframt tveir aðrir fulltrúar úr stjórn BHM, þau Halla Þorvaldsdóttir frá Sálfræðingafélagi Íslands og Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs. Voru þeim einnig færðar gjafir af þessu tilefni.


Fréttir