Ríkinu heimilt að gera starfslokasamning

17.10.2016

Með dómi Hæstaréttar sl. fimmtudag var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms frá 18. nóvember 2015, að Landspítali (LSH) hefði með ólögmætum hætti rift starfslokasamningi við fyrrverandi starfsmannastjóra LSH (S). Í dómi héraðsdóms var meðal annars lagt til grundvallar að fyrrverandi forstjóri LSH hefði í senn haft heimild og verið bær til þess að gera umrætt samkomulag við S skv. lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Taldi Hæstiréttur að S ætti því rétt til efndabóta sem myndi gera hana eins setta fjárhagslega og ef samningurinn hefði verið réttilega efndur samkvæmt efni sínu. Var LSH gert að greiða S rúmar 67 milljónir króna með vöxtum og 3.5 milljónir í málskostnað og hækkaði Hæstiréttur bætur til S um rúmar 40 milljónir.

Ljóst er að mikilvægt fordæmi hefur verið gefið varðandi heimildir forstöðumanna ríkisstofnana til að gera samning við starfsmenn sína um starfslok.

Í sératkvæði eins hæstaréttardómarans í málinu segir:

„Í lögum er ekki lagt bann við því að forstöðumaður ríkisstofnunar semji um starfslok við ríkisstarfsmann. Hefur komið fram í málinu að ríkið og stofnanir þess hafi um árabil í umtalsverðum mæli bundið endi á þjónustu starfsmanna sinna á þann veg, en slíkir samningar hafa ítrekað verið ræddir á Alþingi í formi fyrirspurna til ráðherra án þess að löggjafinn hafi brugðist við með því að girða fyrir þau starfslok eða sett nánari reglur til að tryggja samræmi við úrlausn mála. Þegar þessi stjórnsýsluframkvæmd er virt er það álit mitt að sá samningur sem málið tekur til og var ívilnandi í garð gagnáfrýjanda hafi ekki verið andstæður lögum. Með þessari athugasemd tek ég undir það sem fram kemur hjá meirihluta dómenda.“

Málavextir                                                                                        

Málavextir eru í stuttu máli þeir að starfslokasamningur var gerður á milli S annars vegar og forstjóra LSH hins vegar þann 31. maí 2013. Samkomulagið gekk í megindráttum út á það að S færi í launað námsleyfi frá 1. júní 2013 í eitt ár og að þeim tíma loknum tók við þriggja ára launað tímabil eða frá 1. júní 2014 til 31. maí 2017 þar sem S átti að vera forstjóra spítalans til ráðgjafar um starfsmannamál og sinna öðrum verkefnum sem hann kynni að óska eftir og samkomulag næðist um.

Þann 9. janúar 2014, tjáði nýr forstjóri LSH  S að forveri hans í starfi, hefði ekki haft leyfi til að gera starfslokasamning við S og að fjármála og efnahagsráðuneytið hefði sent LSH bréf með tilmælum um að leysa málið með öðrum hætti.

Afstaða ráðuneytisins var sú að forstöðumenn stofnana hefðu ekki lagaheimild til að gera starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn. Af þessum sökum beindi ráðuneytið þeim tilmælum til LSH að binda endi á starfslokasamning þann sem gerður var á milli S og LSH.

LSH taldi sér því óskylt að efna samninginn samkvæmt efni sínu að öllu leyti eða eftir lok námsleyfistíma frá 1. júní 2014 m.a þar sem engin heimild hafi verið í fjárlögum eða fjáraukalögum til þess að efna samninginn, auk þess sem engum sértekjum hafi verið til að dreifa hjá LSH sem sækja mætti fé til greiðslna í.

Niðurstaða

Niðurstaða héraðsdóms er áhugaverð fyrir nokkrar sakir þar sem ekki er tekið undir sjónarmið fjármálaráðuneytisins um að forstöðumenn hafi ekki heimild til að gera starfslokasamning. Dómurinn lítur svo á að með setningu laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 (starfsmannalög) hafi átt að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald. Ekki sé unnt að útiloka að forstöðumaður stofnunar og starfsmaður komist að samkomulagi um hvaða verkefnum starfsmaður sinnir og að starfsmaður hætti störfum að ákveðnum tíma liðnum. Með hliðsjón af svigrúmi forstöðumanna ríkisstofnana til að fela starfsmönnum önnur verkefni á grundvelli stjórnunarheimilda sinna hafi forstjóri LSH, eins og atvikum var háttað í þessu máli, haft fulla heimild til að fela S önnur verkefni innan sjúkrahússins.

Þá hafi LSH ekki borið að afla sérstakrar fjárheimildar í því skyni að efna samkomulagið, enda var með því ekki stofnað til frekari fjárskuldbindinga af hálfu LSH umfram þær sem þegar voru til staðar í ráðningarsambandi aðila.  Því hafi fyrrverandi forstjóri LSH í senn haft heimild og verið bær til þess að gera umrætt samkomulag við LSH samkvæmt starfsmannalögum.  Ekkert hafi komið fram um að skilyrði til riftunar starfslokasamkomulaginu hafi verið uppfyllt og því hafi  LSH ekki verið ekki heimilt að slíta ráðningarsambandi aðila upp á sitt eindæmi.

Þá er áhugavert það sem kemur fram af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins varðandi námsleyfi en ráðuneytið greinir á milli námsleyfis annars vegar og annarra þátta samningsins hins vegar og telur að stofnun kunni að vera heimilt að greiða starfsmönnum námsleyfi við lok starfs eða eins og segir orðrétt: „Með vísan til þess að ráðuneytið telur að stofnun kunni að vera heimilt að greiða starfsmönnum námsleyfi við lok starfs mun Landspítali greiða laun þér til handa til og með 31. maí 2014.“.


Fréttir