Samstarf BHM og LÍS heldur áfram

Undirritun endurnýjaðs samstarfssamnings fór fram 26. júní

26.6.2020

  • Jóhanna og Þórunn
    Johannaogthorunn
    Jóhanna Ásgeirsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir undirrita endurnýjaðan samstarfssamning LÍS og BHM
  • Jóhanna og Þórunn handaband
    IMG_1195

Jóhanna Ásgeirsdóttir, forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, skrifuðu undir endurnýjaðan samstarfssamning föstudaginn 26. júní.

Undanfarin ár hafa BHM og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) gert með sér samstarfssamning sem endurnýjaður er árlega og breytt eftir þörfum. Markmiðið er sem fyrr að efla þekkingu stúdenta á kjara- og réttindamálum á vinnumarkaði og vinna saman að stefnumótun um sameiginleg hagsmunamál.

Efnislega er samningurinn svipaður fyrri samstarfssamningi LÍS og BHM. LÍS mun áfram eiga rétt til þátttöku í stefnumótun BHM um sameiginleg hagsmuna- og réttindamál og áfram vera tengiliður BHM við Gæðaráð háskólanna, líkt og kveðið var á um í eldri samningi. Þá munu aðilar áfram beita sér sameiginlega fyrir því að settar verði skýrar reglur um starfsnám á háskólastigi. Einnig munu fulltrúar BHM og LÍS í stjórn Menntasjóðs námsmanna hafa með sér samráð um málefni sjóðsins.

Fulltrúar LÍS munu hafa seturétt á upplýsingafundum BHM og fá afnot af skrifstofu- og fundaaðstöðu í húsakynnum bandalagsins, eins og verið hefur. Gildistími nýja samningsins er frá 26. júní 2020 til 25. júní 2021.