Sífellt fleiri félagsmenn leita þjónustu VIRK

Framkvæmdastjóri VIRK hélt erindi á upplýsinga- og samræðufundi BHM

20.2.2019

  • nyir_BHM_VIRK2-1-
    Smelltu á myndina til að stækka hana
  • nyir_BHM_VIRK2-2-
  • IMG_0590
  • IMG_0596
  • IMG_0598
  • IMG_0594
  • IMG_0597

Félagsmönnum aðildarfélaga BHM sem leita eftir þjónustu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Mikil fjölgun varð á nýjum þjónustuþegum VIRK milli áranna 2017 og 2018 og var hún öll vegna aukinnar eftirspurnar háskólamenntaðs fólks eftir þjónustu sjóðsins. Þetta kom fram í erindi Vigdísar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra VIRK, sem hún flutti á upplýsinga- og samræðufundi sem haldinn var í gær fyrir formenn og starfsfólk aðildarfélaga BHM.

Samtals eru nú um 2.500 einstaklingar í þjónustu hjá VIRK, þar af 70% konur og 30% karlar. Á síðasta ári leituðu tæplega 2.000 nýir einstaklingar til sjóðsins, þar af rúmlega eitthundrað félagsmenn aðildarfélaga BHM. Í máli Vigdísar kom fram að ástæður þess að BHM-fólk leitar til VIRK séu mismunandi. Algengasta ástæðan séu geðræn vandamál en stoðkerfisvandamál séu einnig algeng.

BHM-fólk leitar fyrr eftir þjónustu VIRK en aðrir

Vigdís nefndi að það væri jákvætt að félagsmenn aðildarfélaga BHM leituðu að jafnaði fyrr eftir þjónustu VIRK en félagsmenn innan ASÍ, BSRB og KÍ. Þá væri árangur þjónustunnar almennt betri þegar horft væri til BHM-fólks. Um 65% félagsmanna innan BHM fara aftur út á vinnumarkað að lokinni þjónustu hjá VIRK en að meðaltali um 46% félagsmanna innan ASÍ, BSRB og KÍ.

Almennt eru þjónustuþegar VIRK mjög ánægðir með þjónustu sjóðsins og ráðgjafa sem starfa á vegum hans. Hjá BHM starfa nú samtals fimm VIRK-ráðgjafar og sinna þjónustu við félagsmenn BHM, KÍ, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og annarra félaga háskólafólks á höfuðborgarsvæðinu.

Nánari upplýsingar má nálgast í glærum sem Vigdís studdist við á fundinum.


Fréttir