Sjálfstætt starfandi fá enn ekki fullnægjandi meðferð þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir BHM

Umsögn BHM um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa

2.6.2020

BHM styður meginefni frumvarpsins og framlengingu á hlutabótaleiðinni. BHM fagnar því einnig að við úthlutun atvinnuleysisbóta verði VMST heimilt að miða við annað tímabil en áður þegar meðaltal heildarlauna er reiknað út og þannig komið til móts við þá sem eru að koma úr fæðingar- eða foreldraorlofi.

Úrræðin þurfa að taka betur utanum sjálfstætt starfandi

Eins og BHM hefur ítrekað bent á þá þarf að tryggja að breytingin á lögunum nái utan um alla sjálfstætt starfandi einstaklinga, óháð rekstrarformi. Þetta á jafnt við um sjálfstætt starfandi einstaklinga með rekstur á eigin kennitölu og þá sem eru með sér kennitölu um rekstur sinn (t.d. ehf.). Sjálfstætt starfandi einstaklingar með rekstur á eigin kennitölu hafa ekki getað nýtt sér úrræði ríkisstjórnarinnar um hlutabætur þar sem þeim var gert að fara á venjulegar atvinnuleysisbætur, óháð því hvort viðkomandi gat starfað í skertu starfshlutfalli samhliða bótum eða ekki. Á þessu tvennu getur verið umtalsverður tekjumunur þeim sjálfstætt starfandi með rekstur á eigin kennitölu í óhag.

Að lokum átelur BHM stjórnvöld fyrir að hafa eingöngu haft samráð við Alþýðusamband Íslands við gerð frumvarpsins, en ekki önnur heildarsamtök launafólks.

Umsögnina má lesa í heild sinni hér.