Skorað á sveitarfélög að stefna að hámarksstyttingu á öllum vinnustöðum

Fjórar ályktanir samþykktar á aðalfundi BHM

29.5.2021

  • bhm_adalfundur_2021_fundarstjori
    Ragnar H. Hall lögmaður var fundarstjóri á aðalfundi BHM í gær.

Aðalfundur BHM, sem haldinn var 27. maí sl., samþykkti eftirfarandi fjórar ályktanir um styttingu vinnuvikunnar, fjölgun starfa fyrir háskólamenntað fólk, virði háskólamenntunar og blandað starfsumhverfi staðvinnu og fjarvinnu.

Hámarksstytting vinnuvikunnar fyrir allt dagvinnufólk

Aðalfundur BHM 2021 harmar það hversu litla áherslu mörg sveitarfélög hafa lagt á að innleiða hámarksstyttingu vinnuvikunnar í dagvinnu. Brýnt er að tryggja starfsfólki jöfn tækifæri til að njóta hámarksstyttingar óháð eðli og inntaki starfa. Fundurinn skorar á viðkomandi sveitarfélög að fylgja ferli þeirrar innleiðingar sem kveðið er á um í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og Sambands íslenskra sveitarfélaga og stefna að hámarksstyttingu á öllum vinnustöðum.

Skapa verður fleiri störf fyrir háskólamenntuð

Aðalfundur BHM 2021 lýsir þungum áhyggjum af þeim rúmlega fimm þúsundum háskólamenntaðra sem eru án atvinnu. Fundurinn skorar á stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að háskólamenntuðu fólki á atvinnuleysisskrá bjóðist störf sem hæfa menntun þess, reynslu og hæfni. Brýnt er að hækka hámarksfjárhæð almennra ráðningarstyrkja og veita þá til lengri tíma en nú er gert. Einnig þarf að lengja tímabil ráðningarstyrkja sem eru sérstaklega veittir til að ráða fólk sem hefur verið atvinnulaust til langs tíma. Þá er mikilvægt að framlög ríkisins til rannsókna, þróunar og nýsköpunar verði stóraukin og að mótuð verði opinber atvinnustefna þar sem áhersla er lögð á sköpun fjölbreyttra þekkingarstarfa í ólíkum geirum atvinnulífsins.

Háskólamenntun þarf að borga sig

Aðalfundur BHM 2021 lýsir miklum áhyggjum af því að virði háskólamenntunar, sem alla jafna endurspeglast í hærri ævitekjum háskólamenntaðra en framhaldsskólamenntaðra eftir skatt, skuli vera hvað minnst á Íslandi í Evrópusamanburði. Fundurinn skorar á stjórnvöld að huga að áhrifum skattkerfisbreytinga á mun ráðstöfunartekna eftir menntastigi hér á landi.

Blandað starfsumhverfi er framtíðin

Aðalfundur BHM 2021 telur að blandað starfsumhverfi fjarvinnu og staðvinnu sé komið til að vera á íslenskum vinnumarkaði. Mikilvægt er að háskólamenntuðum verði gert kleift að sinna störfum sínum í fjarvinnu sé starfið þess eðlis. Atvinnurekendum ber að útvega nauðsynlegan búnað til að vinnuaðstaða í fjarvinnu sé fullnægjandi. Aðalfundur BHM 2021 telur auk þess mikilvægt að þeim fjárhagslega ábata sem hlýst af fjarvinnu verði skipt jafnt milli launafólks og atvinnurekenda, til að mynda með launahækkunum. 


Fréttir