Skref í rétta átt í nýju fjáraukalagafrumvarpi

Umsögn BHM um frumvarp til fjáraukalaga

7.5.2020

Í frumvarpinu er lagt til að veita rúmlega 8,4 ma.kr. í félagslegar aðgerðir, þ.m.t. 2 milljörðum kr. til náms- og starfsúrræða fyrir atvinnuleitendur. BHM fagnar því að grípa eigi til aðgerða fyrir námsmenn sem eiga engan eða takmarkaðan rétt til atvinnuleysisbóta. Einnig fagnar BHM því að auka eigi við námsframboð. BHM lýsir ánægju sinni með að fjölga eigi sérhæfðu starfsfólki innan heilsugæslunnar, s.s. sálfræðingum og félagsráðgjöfum.

BHM minnti ráðherra á yfirlýsingar frá 2018 um heilbrigðisstéttir

Í umsögn sinni minnir BHM á yfirlýsingar forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra frá því í febrúar 2018 þar sem lýst var áhyggjum af háum meðalaldri margra í heilbrigðisstéttum. Yfirlýsingin innihélt jafnframt þá tillögu að gerð yrði mannaflaspá fyrir heilbrigðiskerfið og það gert að eftirsóknarverðum starfsvettvangi. BHM leggur til að yfirlýsing ráðherranna þriggja verði höfð til hliðsjónar við val á námsframboði, þannig að fleiri sæki sér háskólanám í greinum þar sem mest þörf er fyrir nýliðun.

Launaukar og umbun eru nú þegar hluti af kjarasamningum

BHM fagnar því að stjórnvöld ætli sér að greiða sérstakan launaauka í formi eingreiðslu til þess heilbrigðisstarfsfólks í framlínunni. BHM áréttar jafnframt að bæði í kjarasamningum við ríkið og í ýmsum stofnanasamningum aðildarfélaga BHM séu nú þegar ákvæði um sérstaka umbun umfram mánaðarlaun vegna sérstakra aðstæðna og tímabundins álags. Sértækar aðgerðir stjórnvalda koma ekki í stað kjarasamningsbundinna ákvæða og BHM mun áfram beita sér fyrir því að þessi úrræði séu nýtt til að koma til móts við starfsfólk á álagstímum.

Lokunarstyrkir þurfa einnig að ná til sjálfstætt starfandi

Miklu máli skiptir að gerð sé tillaga um 100 m.kr. rekstrarframlag til Vinnumálastofnunar enda verður ekki séð hvernig stofnunin eigi að þjóna hlutverki sínu án þess. BHM áréttar mikilvægi þess að svokallaðir lokunarstyrkir til fyrirtækja nái jafnframt til sjálfstætt starfandi einstaklinga á vinnumarkaði.

Opinber stuðningur í takt við ábendingar og áherslur BHM

BHM styður áform stjórnvalda um aðgerðir til að efla nýsköpun og þróun. Bandalagið hefur lengi bent á mikilvægi opinbers stuðnings við nýsköpunarsjóði í þeim tilgangi að fjölga efnahagslegum stoðum atvinnulífsins. Aukinn skattafrádráttur til fyrirtækja vegna framlaga til rannsókna og þróunar, hærri framlög til Kríu fjárfestingasjóðs og rýmkun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða eru allt skref í rétta átt. Þá er ástæða til að fagna því sérstaklega að hækka eigi framlög til listamannalauna.

Nýsköpunarsjóður námsmanna

300 m.kr. framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna er í samræmi við ábendingar BHM um ákjósanlegar aðgerðir vegna ástandsins, þó að ekki verði séð að gert sé ráð fyrir því að ríkisstofnanir geti ráðið til sín námsmenn í sérstök rannsóknarverkefni. BHM beinir því til fjárlaganefndar að gera það kleift til hagsbóta fyrir námsmenn og stofnanir ríkisins.

Smelltu hér til að lesa umsögnina í heild sinni.