Skrifstofa BHM innleiðir styttingu vinnuvikunnar og breytir afgreiðslutíma Þjónustuvers

27.8.2020

  • bhm_myndir_fyrir_heimasidu-19

BHM hefur lengi talað fyrir því að vinnuvikan verði stytt í viðleitni til að skapa fjölskylduvænan vinnumarkað og auðvelda fólki að samræma störf og einkalíf. Undanfarna mánuði hefur starfsfólk og stjórn BHM unnið að útfærslu styttrar vinnuviku innan Bandalagsins án þess að til komi tilfinnanleg skerðing á þjónustu við félagsmenn aðildarfélaga.

Þeirri vinnu lauk í sumar og er afar ánægjulegt að tilkynna að hámarks stytting verður gerð á vinnuviku starfsfólks BHM. Frá og með 1. september næstkomandi mun vinnuvikan því styttast um 4 stundir. Valin var sú leið að stytta einn vinnudag í hverri viku. Við mat á útfærslu var m.a. haft í huga álag á Þjónustuver, þörf félagsmanna fyrir þjónustu og niðurstaðan sú að heppilegast væri fyrir alla aðila að styttingin kæmi til á föstudögum. Af þeim sökum mun Þjónustuverið loka fyrr á föstudögum.

Þjónustuverið verður áfram opið milli kl. 9:00 og 16:00 mánudaga til fimmtudaga, en á föstudögum verður opið milli kl. 9:00 og 13:00.


Fréttir